Orð og tunga - 01.06.2008, Blaðsíða 113
Þóra Björk Hjartardóttir: íslenzk-færeysk orðabók
103
sem dæmi má nefna að orðin dávakur, defill, demla, denging og densa
sem öll eru í ÍO er ekki að finna í ÍF. Sama er að segja um fágætari
merkingu orðanna dekur 'óþarft skraut', deli 'defill, skrambi' og 'stutt-
ur, digur hákarl', demba 'hröð reið' og derringur' kaldi, stinnur vindur'
svo tiltekin séu fáein dæmi.
Hér hefur nú verið gerð grein fyrir ýmsu orðafari sem finna má í
ÍO en ekki í ÍF og þá leiðir beint að spyrja hvort einhverjar viðbætur
sé að finna í ÍF, einhver orð sem ekki eru í 10? Samanburðurinn á úr-
takinu úr stafkaflanum D leiddi í ljós að nokkur orð í ÍF eru ekki í ÍO
og það á enn fremur við um nokkur notkunardæmi í flettugreinun-
um (sjá 4. kafla). Þau orð sem bætast við eru deildarstrik, deilinn, deili-
töluorð, deilugirni, dekkvakt, demantbor, deplaháfur, desílítri, deyfðarlegur,
deyfubragð og digg. Aðeins eitt þessara orða var að finna í útgáfu /s-
lenskrar orðabókar frá 2002, orðið digg í merkingunni 'ástleitni, daður'.
Enn fremur voru á stöku stað notuð önnur orð í íslenskum skýringum
en við sömu flettiorð í ÍO. Þannig er t.d. orðið deiggerður skýrt með
samheitinu kveifarlegur en í ÍO með orðinu lingerður.
En hvað með ýmis nýleg nýyrði í íslensku máli, hafa þau skilað sér
í ÍF? Flett var upp dágóðum fjölda nýyrða sem að því best verður talið
hafa orðið til síðustu tvo áratugi eða svo, eða eftir að ÍO kom út.10 Leit
að eftirfarandi orðum bar ekki árangur:
(3) aksturstölva, alnet, amapóstur, áfallahjálp, áfangaheimili,
árangursstjórnun, barnvænn, beinþéttni, birgir, bókakaffi,
breiðband, burðardýr, djúpviðtal, einkadans, einkaþjálfun,
erfðabreyttur, fellihýsi, fjarfundur, fjölpóstur, flatskjár, for-
eldrarölt, geðhvörf, harðkornadekk, heimasíða, hnattvæðing,
hringitónn, jafningjafræðsla, lífsýni, lýðheilsa, mannauð-
ur, markpóstur, meðvirkur, minniskort, netbanki, nýbúi,
prentvænn, samlegðaráhrif, sttenging, skjávarpi, staðalbún-
aður, staðalímynd, lírvalsvísitala, veffang, vefsíða, vefslóð,
veiðikort, vetnisbíll, vistvænn, þekkingarsamfélag, þjóðlenda,
ærumorð
10Ágústu Þorbergsdóttur, málfræðingi á málræktarsviði Stofnunar Árna Magnús-
sonar í íslenskum fræðum, kann ég bestu þakkir fyrir að hafa látið mér í té lista um
nýleg nýyrði, almenn sem sérhæfðari, sem hún tók saman árið 2005. Nokkur nýyrð-
anna sem athuguð voru eru viðbætur mínar.