Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Side 105
104
er dauðafúga leikin á vatnaflygil, þar sem mannleg samskipti eru tengd
tómleika úthafsins sem er „dimmara og svartara en heiðasti / himinn og
djöfullega þögult“.4 Þegar líða tekur á ljóðið vakna óþægilegar spurningar
um getuna til þess að koma upp nýjum afkvæmum, því að „fuglsegg eru
brothætt og / […] bragðgóð“ og „barnið þarf / […] (sólarhrings)vernd þótt
ekki sé það / vegna bragðsins“. „Hvar / ertu?“ spyr ljóðmælandinn vænt-
anlegan maka sem ber að taka þátt í því að vernda afkvæmin, en sjálf spurn-
ing og niðurstaða ljóðsins endurspegla á einhvern hátt ugg sem Naomi
Klein gerir að sérstöku umræðuefni í bók sinni um loftslagsbreytingar,
This Changes Everything. Þar setur hún eigin erfiðleika við að eignast barn í
samhengi við endurnýjunarrétt náttúrunnar. Síðasti hluti bókarinnar snýst
um endurtekin fósturlát hennar og erfiðleika margra dýrategunda við að
koma afkvæmum sínum á legg, meðal annars vegna loftslagsbreytinga
og almennrar mengunar. Klein spyr sig þeirrar spurningar hvort næsta
útþurrkun muni kannski fyrst og fremst snúast um þennan vanda og hvort
nýja táknmyndin fyrir móður náttúru sé óbyrjan.5 Ljóði Sigurbjargar lýkur
á opinberun, á skilningi sem kannski er ekki síst ógnvænlegur vegna þess
að niðurstaðan er aldrei færð í orð: „það er svo langt síðan / ég hef horft /
í augun á einhverjum þegar ég vakna // einhverjum sem / veit“.
Uggurinn sem fylgir hinu ókomna vaknar líka með lesandanum í
„Andvökusennu“ Antons Helga, þar sem saga mannsins fyrir breyting-
arnar miklu er sögð á einföldu máli, nánast eins og lesin sé þula fyrir barn
kringum háttamál, aftur og aftur. Í endurtekningunni býr hugfró, tilfinn-
ing fyrir því að hægt sé að snúa aftur á sama staðinn og endurtaka leikinn,
þótt sagan sé hugsanlega raunaleg. „Segðu mér söguna aftur / þá sem þú
sagðir í gær“ segir ljóðmælandinn í fyrstu línunum og lesendur sem komn-
ir eru til ára sinna hugsa til litlu stúlkunnar með „ljúfu augun / og ljósu
flétturnar tvær“ sem Jóhann Magnús Bjarnason orti um, en ljóðið var um
árabil sungið fyrir íslensk börn.6
4 Freistandi er að tengja myrkt úthafsmyndmálið í ljóði Sigurbjargar gegndarlausri
ofveiði fiskistofna og áhrifum loftslagsbreytinga á vistkerfi úthafanna. Af forvitni-
legum bókum um það efni má nefna Richard Ellis, The Empty Ocean. Plundering the
World’s Marine Life, Washington, Covelo, London: Island Press 2003; og Oceans
and Marine Resources in a Changing Climate. A Technical Input to the 2013 National
Climate Assessment, ritstj. Roger Griffis og Jennifer Howard, Washington, Covelo,
London: Island Press 2013.
5 Naomi Klein, This Changes Everything. Capitalism vs. the Climate, London: Allen
Lane 2015, bls. 419–448.
6 Ljóð Jóhanns Magnúsar Bjarnasonar hefst á línunum: „Segðu mér söguna aftur / –
Guðni ElíSSon