Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Síða 198
197
sjálf.6 Í öðru lagi má hér sjá að yfirlýsingin um ljóðagerð eftir Auschwitz til-
heyrir lýsingu Adornos á sögulegu ferli þjóðfélagsmótunar, breytt staða ljóðs-
ins er aðeins ein birtingarmynd þess sem hann kallar „lokastigið í díalektík
menningar og villimennsku“ og til að skilja fullyrðingu hans er nauðsynlegt að
horfa til hins víðara samhengis.
Til að bregðast við þeirri spurningu hvers vegna ljóðlistin ratar inn í
umræðuna á jafn afdrifaríkum tímapunkti í röksemdafærslu Adornos er gagn-
legt að huga nánar að sérstöðu ljóðlistarinnar í heimspekilegri fagurfræði hans.
Ljóðið gegnir hér mikilvægu hlutverki sem hinsta vígi sannferðugrar og ein-
staklingsbundinnar reynslu, þar sem hugveran getur fundið einskonar athvarf
í hlutgerðri menningu nútímans. Í þekktri ræðu komst Adorno þannig að orði
að „með andstöðu sinni færi ljóðið í orð draum um heim þar sem hlutirnir
væru öðruvísi“ og „fjarlægð þess frá tilverunni eins og hún er“ verði að „mæli-
kvarða á hve ósönn hún er og svikul“.7 Ljóðið verður þannig að vettvangi
milliliðalausrar reynslu þar sem hugveran sleppur undan nauðung samfélags-
ins fyrir utan, en um leið undirstrikar Adorno að hugmyndin um hreinleika
ljóðsins og krafan um „hið óspjallaða orð“8 eru sem slík af samfélagslegum
toga, innan samfélagsins skapast þörf fyrir vettvang sannferðugrar reynslu um
leið og henni hefur verið úthýst úr samfélaginu í krafti hlutgervingar og mark-
aðsvæðingar. Þessi sýn á ljóðið endurómar í fullyrðingu Adornos um ljóðagerð
eftir Auschwitz.
Í síðari skrifum greip Adorno upp fullyrðinguna um ljóðagerð eftir
Auschwitz frá ólíkum sjónarhornum, en einna athyglisverðust er umræðan í
greininni „Ist die Kunst heiter?“ („Er listin glaðvær?“). Þar virðist Adorno að
nokkru leyti draga í land: „Setningin um að ekki sé hægt að skrifa ljóð eftir
Auschwitz á ekki við skilyrðislaust, en vegna þess að mögulegt var að yrkja
eftir Auschwitz og það verður áfram mögulegt um ókomna tíð, á hún vissulega
við að því leyti að ekki er lengur hægt að ímynda sér neina glaðværa list.“9
Tilvitnunin sýnir ekki aðeins að dómurinn um ljóðlistina í fyrri greininni
tekur í raun til listsköpunar í víðara samhengi, heldur einnig að Adorno hefur
hér einkum í huga það sem hann nefnir glaðværa list – ljóðið getur ekki lengur
6 Sjá: Klaus Hofmann, „Poetry after Auschwitz – Adorno’s Dictum“, German Life
and Letters, 1/2005, bls. 182–194, hér bls. 182–183.
7 Theodor W. Adorno, „Ræða um ljóðlist og samfélag“, þýð. Benedikt Hjartarson
og Jón Bjarni Atlason, Ritið 2/2011, bls. 183–204, hér bls. 191.
8 Sama rit, bls. 191.
9 Theodor W. Adorno, „Ist die Kunst heiter?“ Gesammelte Schriften, 11. bindi: Noten
zur Literatur, ritstj. Rolf Tiedemann, Frankfurt am Main: Suhrkamp, 1997, bls.
599–606, hér bls. 603.
MENNINGARGAGNRÝNI OG SAMFÉLAG