Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 5
4
hugmyndin um dulhyggju og hið dulræna virðist ekki samrýmast hug-
myndum okkar um menningu og hugarfar nútímans“.3 Það er fræðimönn-
um m.ö.o. nokkur ráðgáta að hugmyndir dulspekinnar skuli hafa haft slíkt
aðdráttarafl fyrir menntamenn og listamenn á mótunartíma vestrænnar
nútímamenningar – og það sem verra er, þetta er á einhvern hátt pínlegt
fyrir sjálfsmynd okkar, sem kjósum að skilgreina okkur sem þátttakendur í
menningarlegu og vísindalegu verkefni sem er í senn gagnrýnið og fram-
sækið.4 Fyrir vikið hefur ríkt hneigð til að líta á hugmyndir dulspekinnar
sem barn síns tíma, sem einskonar leifar úr menningu fortíðar er hjari
áfram í nútímanum en hafi ekki mótandi áhrif á þá meginstrauma er leggi
grunn að samtíma okkar. Frá slíku sjónarhorni virðist hægðarleikur að
víkja þessum straumum til hliðar, á þeim forsendum að þeir séu vissulega
til staðar en liggi einfaldlega utan rannsóknasviðsins hverju sinni. Þannig
hafa veigamikil svið hugmynda- og menningarsögunnar legið að nokkru
leyti í þagnargildi, fræðimenn sitja eftir með þægilega og kunnug lega
mynd af hinni sögulegu framvindu sem ítrekað er endurtekin og stað-
fest. Nærvera dulspekilegra strauma í menningu nútímans er þannig ekk-
ert launungarmál en á einhvern sérkennilegan hátt eru þeir aukaatriði,
skipta ekki máli fyrir stóru myndina. Óhætt er að taka undir þá fullyrðingu
Wouters J. Hanegraaff að dulspekin sé „ýkjulaust það svið sem mest hefur
verið vanrækt og misskilið innan hugvísindanna, í það minnsta ef horft
er til vestrænnar menningar“.5 Þessi staða þekkingar leiðir þó um leið til
þess að „möguleikinn – eða jafnvel líkurnar – á nýjum uppgötvunum og
óvæntri nýrri innsýn er hvergi jafn mikill og einmitt hér“.6 Þetta endur-
speglast í greinunum sem birtast í þessu hefti Ritsins, sem eru nokkuð ýtar-
legar og draga fram margvíslegar heimildir og hugmyndir sem fræðimenn
hafa veitt litla athygli.
Vart þarf að koma á óvart að skoðanir fræðimanna séu skiptar þegar
kemur að rannsóknum á dulspeki, enda hefur einn helsti sérfræðingur
á rannsóknasviðinu lýst vettvanginum sem einskonar „ruslakörfu“ vest-
3 Alex Owen, The Place of Enchantment. British Occultism and the Culture of the Modern,
Chicago og London: University of Chicago Press, 2004, bls. 6.
4 Hér er horft til þekktrar greinar Jürgens Habermas um verkefni nútímans: „Die
Moderne – ein unvollendetes Projekt“, Die Moderne – ein unvollendetes Projekt.
Philosophisch-politische Aufsätze, Leipzig: Reclam, 1990, bls. 32–54.
5 Wouter J. Hanegraaff, Western Esotericism. A Guide for the Perplexed, London:
Bloomsbury, 2013, bls. vii.
6 Sama rit, bls. vii.
BENEDiKT HJARTARSON