Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 102
101
Hápunktur Abreaktionsspiel er þegar Nitsch hefur samræði við Koeck
með gervigetnaðarlim. Hér er ekki á ferð ástríðufullur verknaður heldur
helgiathöfn, sem er undirstrikað af allri umgjörð verksins. Samfarirnar eiga
sér stað á krossi og fela því í sér vanhelgun sem kallast á við hefð svörtu
messunnar. Nitsch nefnir ítrekað í skrifum sínum að trúarlegar og erótískar
athafnir séu sambærilegar, enda eiga kynferðisleg tákn sér beina samsvör-
un á hinum trúarlega merkingarási í táknheimi hans. Samræði samsvarar
sakramenti og athöfn altarisgöngu, höfuðathöfn kristinnar tilbeiðslu sem
minnist Krists og fórnar hans. Að para altarissakramentið saman við kynlíf
hlítir vissum rökum, þar sem samfarir geta verið farvegur til fjölgunar. Í
dulrænu samhengi eru samfarir hápunktur fjölmargra kynferðislegra laun-
helga, en athöfn sem getur getið af sér nýjan einstakling hlýtur að búa yfir
óvenjulegum krafti, sem er tilvalið að virkja til fjölkynngi. Ef horft er til
Abreaktionsspiel má sjá hvernig samræði Nitsch og Koeck birtist sem ris og
um leið vendipunktur aðgerðarinnar. Á eftir fylgir upplausn sem markast
af gífurlegri lífsorku, þegar Koeck verður gerandi í stað fórnarlambs og
Nitsch er meðhöndlaður af henni og hjálparmönnunum. Rofið táknar þá
andlegu og kynferðislegu endurlausn sem gjörningurinn leiðir af sér.
Eina skýrustu birtingarmynd satanisma í Abreaktionsspiel má finna í
áðurnefndri meðferð Nitsch á kristnum táknum og siðum, en hann er
meðvitaður um tengslin á milli altarissakramentisins og satanisma. Oft
getur reynst erfitt að greina á milli slíkra tilvísana, þar sem kristin tákn
eru jafnan undirstaða í satanískum gjörningum. Nitsch vinnur af ráðnum
hug með margar frábrugðnar hefðir og skapar úr þeim nýja helgisiða-list
eða helgileik. Í umfjöllun sinni um svarta messu notar hann tilvitnun úr
frægri skáldsögu um satanisma, Là-bas (Undir niðri, 1891) eftir Joris-Karl
Huysmans. Kaflinn sem hann vitnar í geymir lykilatriði í verkinu, þar sem
svört messa fer fram og lýst er notkun á messuklæðum og oblátu við sat-
anískar helgiathafnir. Notkun Nitsch á helgigripum sömu tegundar er því
með fullri vitund um tenginguna á milli afbakaðrar notkunar á kristnum
munum og svörtum messum.72 Tilvitnunin í Là-Bas afhjúpar jafnframt
72 Notkun á altarissakramentinu við launhelgar einskorðast þó ekki við satanisma,
heldur kemur víðar fram innan dulspekinnar. Aleister Crowley er þekkt dæmi, en
hann notaðist mikið við kristin tákn á borð við altarissakramentið og sneri út úr
þeim, sem skýrir að hluta til þráláta tilhneiginguna til þess að stimpla hann sem sat-
anista: „Í messu minni er oblátan úr saur, sem ég get neytt í (óttablandinni) lotningu
og tilbeiðslu; á meðan ég geri heilagan verndarengil minn að kamri ímyndunarafls
míns.“ Aleister Crowley, The Magical Record of the Beast 666. The Diaries of Aleister
Crowley 1914–1920, London: Duckworth, 1972, bls. 202.
ÓSiðLEGiR GJÖRNiNGAR OG RÓTTÆKAR LAUNHELGAR