Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Síða 130
129
til hvílir þó síður á trúarlegri uppljómun eða innsæi en á hnitmiðuðu vís-
indastarfi. Þannig kallast lýsingar hans á eigin brjálsemi á við hugmyndir
um gnósis, en sú nýja þekking sem hann miðlar í Nýal er engu að síður af
vísindalegri rót og hann leggur áherslu á að hún sé auðskiljanleg þeim sem
hafa skilning á vísindalegri aðferð. Samkvæmt nýalsspekinni felst vandinn
í því að jarðlífið er fangið í „helstefnu“, þar sem allt „á jörðu er að hrapa“
og „alt líf líður undir lok á slíkum hnetti, eftir mjög svívirðilega hnign-
unarsögu“ (36). Heimsmyndin á rætur í hefð gnóstíkur, þar sem menn eru
taldir fangnir í efnisheimi er sé skapaður af óæðri og illum heimssmið eða
demíúrg, en handan við þetta rými tálsýna liggur síðan ríki hins guðlega,
sem maðurinn getur fengið hugboð um í krafti guðlegrar visku.54 Í nýals-
spekinni eru það aftur á móti vísindin sem varða leiðina til þessa rýmis
uppljómunar og samstillingar, „það sem leysir menn, breytir stefnunni, er
ekki nein trúarkenning, heldur aukin þekking, fullnaðarsigur vísindastefn-
unnar“ (44).
Hvörfin á höfundarferli Helga verða ekki með skyndilegri uppljómun,
heldur er um að ræða hægfara ferli þegar hann tekur að kynna sér svið
sálarrannsókna og dulspekileg rit og verður æ sannfærðari um að líf þrífist
á hnöttum í öðrum sólkerfum.55 Helgi gerir tengsl sín við dulspekilegar
trúarhefðir ítrekað að umfjöllunarefni í Nýal og þar vekur athygli að hann
lýsir ferli sínum út frá samfellu fremur en einhvers konar straumhvörfum:
Þann misskilning – sem eg rek mig á stundum – að eg hafi umhverfst
að hugsunarhætti og gerst dulrænumaður, verð eg að biðja menn að
54 Um hina gnóstísku hefð, sjá Roelof van den Broek, Gnostic Religion in Antiquity,
Cambridge: Cambridge University Press, 2013; Karen L. King, What Is Gnostic-
ism?, Cambridge Massachusetts og London: Belknap, 2003. Um gnóstík og áhrif
hennar í víðara menningarsögulegu samhengi, sjá Michael Pauen, Dithyrambiker des
Untergangs. Gnostizismus in Ästhetik und Philosophie der Moderne, Berlín: Akademie
Verlag, 1994; Roelof van den Broek og Wouter J. Hanegraaff (ritstj.), Gnosis and
Hermeticism from Antiquity to Modern Times, New York: SUNY Press, 1998. Sjá
loks ágæta umfjöllun Jóns Ma. Ásgeirssonar um gnóstík í inngangi að íslenskri
þýðingu hans á Tómasarguðspjalli, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2001,
bls. 13–52.
55 Í texta frá 1903 er Oliver Lodge á svipuðum slóðum og Helgi. Þar ræðir hann
fjarhrif og möguleikann á tilvist utan líkamans og sér ekki ástæðu til að „takmarka
möguleikann á tilvist“ við „þá vini okkar sem hafa nýlega byggt þennan hnött“, þar
sem allt eins kunni að finnast „tilvist á öðrum hnöttum eða handan rúmsins“. Oliver
Lodge, „Address by the President“, Proceedings of the Society for Psychical Research,
17. bindi: 1901–3, London: R. Brimley Johnson, 1903, bls. 37–57, hér bls. 50; sjá
einnig Asprem, „Pondering imponderables“, bls. 147.
„MAGNAN AF ANNARLEGU ViTi“