Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 131
130
forðast. Dulspekirit hefi eg að vísu talsvert stundað nú í nokkur ár,
en einungis vegna þess að eg hefi fundið, hvernig gera má bjart á
þessu forna þokusvæði, og leggja það undir yfirráð vísindanna. Og
má um það starf með sanni segja, að það sé í allra nauðsyn unnið.
Extra scientiam nulla salus, er mín setning. Eða með öðrum orðum:
það er einungis ein leið til áreiðanlegrar þekkingar, og það er að
nota skynsemina (114).
Gagnrýnin á hefðbundna vísindaiðkun er fyrirferðarmikil og á köflum
óvægin í Nýal og henni er m.a. lýst sem „nautsku gagnvart nýjum sann-
indum og illvild gagnvart þeim sem koma fram með þau“ (306). Þegar
grannt er skoðað reynist gagnrýnin á trúarbrögð og andlega strauma þó
enn óvægnari. „Allri dulvísi, mystik, er hér lokið“ (109) skrifar Helgi og
útfærir þá fullyrðingu nokkru síðar: „Ljós vísindanna eyðir þá öllum dul-
rænum þokum, og að vísu opnast sýn til mjög miklu furðulegri landa,
heldur en jafnvel allra dulrænustu dulrænu hefir nokkurn tíma órað fyrir“
(163). Nýall er þannig knúinn áfram af mælskulist upplýsingar, þar sem
vísindin brjóta undir sig svið átrúnaðar og goðsagna. Með verkinu stíg-
ur loks fram „einhver sem gert hefir að æfistarfi sínu að leita þekkingar,
byrjar að átta sig á þessum hlutum, og leggur undir vísindin, það sem
áður hafði verið svæði trúarbragðanna. Og þá hefst ný heimsöld“ (483).
Skrifin standa vissulega undir merkjum trúarlegrar heimsrofasýnar, en sú
nýja „heimsöld“ sem hér er lýst rís upp í krafti vísindalegrar þekkingar.
„Ólíklegri maður til að fara með rugl er ekki til á neinni jörð“ (162) full-
yrðir Helgi á einum stað og hnykkir á þeirri staðhæfingu nokkru síðar:
„aldrei hefir nokkur maður á þessari jörð, verið jafn langt frá því og eg
er, að trúa á anda (spirits) og andaheim (spirit world)“ (294–295).56 Nýall
er m.ö.o. settur fram sem afrakstur af starfi vísindamanns sem hefur lagt
stund á „náttúrufræði“ og „læknisfræði“ og hefur „betur og betur […]
verið að læra hina réttu vísindalegu varkárni“ (306). Til að varpa ljósi á
56 Áherslur af þessum toga eru áberandi í alþýðlegum vísindaskrifum um aldamótin
1900 og má þar t.a.m. benda á formála Björns Bjarnasonar að Úraníu: „Tilgátur
hans og framtíðarspár eru […] engan veginn úr lausu lopti gripnar, heldur eiga bein
rök að rekja til grundvallaratriða vísindanna eða styðjast við það, er djúpsæir spek-
ingar jafnan hafa ætlað um framþróun mannkynsins og örlög hnattanna. Að eins
á þeim svæðum, er vísindin hafa eigi enn náð föstum fótum, hættir honum einatt
við að sökkva sjer niður í dulspekisóra, t.d. að því er snertir dámagn, andatrú og
því um líkt.“ Björn Bjarnason, „Formáli“, Camille Flammarion, Úranía, bls. v–ix,
hér bls. vii.
BenediKt HjaRtaRSon