Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 226
225
Ritið 1/2017, bls. 225–251
Ásgeir Berg Matthíasson
Af aðferð Chomskys
og vinnubrögðum Guðna Elíssonar
Á undanförnum árum hefur Guðni Elísson, prófessor í almennri bók-
menntafræði við Háskóla Íslands, ritað þrjár greinar í jafnmörg tímarit
um „Siðanefndarmálið“ svokallaða en þar er átt við málarekstur félagsins
Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni fyrir Siðanefnd Háskóla
Íslands og skyld mál.1 Óþarfi er að rekja hér málavöxtu frekar nema til
að segja frá því að þegar fyrsta grein Guðna um málið birtist í Tímariti
Máls og menningar átti undirritaður í snörpum skoðanaskiptum um hana
á Facebook. Guðni sjálfur blandaði sér í umræðurnar og lauk þeim með
þeim hætti að mörgu í gagnrýni minni var enn ósvarað, eða svo taldi ég.
Undir flestum kringumstæðum ættu þessi skoðanaskipti okkar Guðna
ekki neitt sérstakt erindi við lesendur tímarits á borð við þetta, en nú hefur
Guðni hins vegar birt tvær greinar til viðbótar, aðra hér í Ritinu og hina
í Ritröð Guðfræðistofnunar, þar sem sumum athugasemda minna er svarað.
Mér þykja þær greinar jafnvel enn gagnrýniverðari en sú fyrsta og get ég
því ekki látið undir höfuð leggjast að svara þeim á formlegri vettvangi en
Facebook – nú þegar ég hef verið dreginn inn í málið með þessum hætti.2
Áður en lengra er haldið vil ég þó koma á framfæri örfáum almennum
athugasemdum. Fyrst vil ég nefna að Guðni lætur þess ógetið við lesand-
ann að þessar umræður voru, þegar grein hans birtist, lokaðar almenn-
1 Sjá Guðni Elísson, „Í heimi getgátunnar: Kærur Vantrúar, glæra 33 og Egill
Helga son“, Tímarit Máls og menningar 4/2012, bls. 4–26, Guðni Elísson, „Fúsk,
fáfræði, fordómar?: Vantrú, Háskóli Íslands og akademísk ábyrgð“, Ritið 3/2014,
bls. 135–189 og Guðni Elísson, „Britney fokkíng Spears: Kærur Vantrúar og
innihaldsgreining í hugvísindum“, Ritröð Guðfræðistofnunar 2/2015, bls. 17–31.
2 Það ætti þó að koma fram strax að undirritaður hefur verið félagi í Vantrú síðan
á menntaskólaárunum og liggja eftir hann tvær greinar á vefsíðu félagsins, önnur
um gagnrýna hugsun og hin um siðfræði.