Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 154
153
innan sálarrannsókna og annarra dulspekihreyfinga.118 Hefðirnar gegndu
allar veigamiklu hlutverki í gagnrýni á ríkjandi rökhyggju og þjóðfélags-
gerð sem talin var grundvallast á þrúgandi efnishyggju. Í skrifum Helga
tilheyra þær kenningar á vettvangi líffræði, náttúruspeki, lífheimspeki og
dulspeki sem hér hafa verið nefndar ekki skýrt aðgreindum þekkingarsvið-
um, heldur grípa þær hver inn í aðra í mótun hinnar nýju heimsmynd-
ar. Sérstæður hugmyndabræðingurinn sem birtist í Nýal er lýsandi fyrir
þann vettvang gagnmenningar sem byggðist upp í andstöðu við ríkjandi
rökhyggju. Það sem tengdi kenningar og gagnrýni ný-lamarckismans, líf-
heimspekinnar og dulspekinnar saman í hugum margra fylgismanna var
leitin að leiðum til að gera manninn á ný að virkum geranda í mótun hins
efnislega veruleika. Gagnrýnin beindist ekki síst að þeirri efnisbundnu
löghyggju eða nauðhyggju sem ekki var aðeins talin ríkjandi, heldur gerði
hún jafnframt manninn að viljalausu verkfæri í framvindu sögunnar.119
Í Nýal nefnir Helgi „Oken og Lamarck, Scrope og Lyell og Leopold
v. Buch, Brown og Schleiden, Darwin og Spencer“ sem þá menn er „bezt
ryðja leiðina að réttum skilningi“, en í framhaldinu bætir hann við þennan
hóp virtra náttúruvísindamanna þeim Bergson, William James, „Hegel
og Schelling og Schopenhauer“ (97). Þannig spyrðir hann saman verkum
þeirra andans jöfra á sviði náttúruvísinda og heimspeki er lagt hafi grunninn
að nýalsspekinni, þótt niðurstaðan sé sú að tilraunir þeirra hafi „allar mis-
tekist“ (97). Þegar leitast er við að greina samfelluna í höfundarverki Helga
er nauðsynlegt að huga nánar að hlutverki ný-lamarckismans. Stephen Jay
Gould hefur lýst inntaki ný-lamarckismans skilmerkilega sem „alvarlegri
kenningu í andstöðu við Darwin, sem frá síðari hluta nítjándu aldar og út
fjórða áratuginn var útbreidd á meðal steingervingafræðinga“ og byggð-
ist á „þeirri hugmynd að þótt þróun myndaðist upphaflega með aðlögun,
gæti hún brotist undan stjórn umhverfisins“.120 Ný-lamarckisminn fól í sér
róttæka útfærslu á „starfsvalskenningu“ Lamarcks, en ólíkt náttúruvals-
kenningu Darwins gerði starfsvalskenningin „viljabundna breytni einstak-
118 Sjá t.a.m. Henri Bergson, „„Fantômes de vivants“ et „recherche psychique““,
L’Énergie spirituelle, bls. 61–84. Textinn var upphaflega fluttur sem fyrirlestur hjá
Sálarrannsóknafélaginu í London 28. maí 1913.
119 Um tengsl ný-lamarckisma, lífheimspeki, dulspeki og gagnmenningar nútímans
hef ég fjallað í öðru samhengi, sjá Visionen des Neuen. Eine diskurshistorische Analyse
des frühen avantgardistischen Manifests, Heidelberg: Winter, 2013.
120 Stephen Jay Gould, The Structure of Evolutionary Theory, Cambridge Massachusetts
og London: Belknap, 2002, bls. 365.
„MAGNAN AF ANNARLEGU ViTi“