Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Síða 22
21
talið hefur verið einkenna nútímajóga sérstaklega og er hún sögð vitna
um hvernig indversk fræði voru löguð að vinsælum frumspekilegum hug-
myndum í Bandaríkjunum. Hið þriðja er skilningurinn sem lagður er í
samadhi; í vedafræðum er það lokatakmark jógans, andinn losnar frá efninu
og verður alfrjáls en í nútímajóga snýst það gjarna um að ná sambandi við
yfirvitundina og þar með samvitundina (e. collective consciousness).46
Í kerfi sínu lagði Stanislavskíj áherslu á ryþmíska öndun til að menn
næðu valdi á prana; á þörfina fyrir að leikarar kæmust yfir takmarkanir
efnis og líkama en í sömu mund að þeir misstu ekki sjónar á líkama og
anda sem heild.47 Hann örvaði ímyndunarafl leikara með því að láta þá
setja sér fyrirbæri fyrir hugskotssjónir; þjálfaði athygli þeirra, einbeitingu
og íhugun í anda jógakenninga, og taldi þá m.a. lykilatriði að þeir fylgdust
með öðrum og settu sig í þeirra spor.48
Þórbergur virðist hafa lagt rækt við mörg sambærileg atriði. Til vitnis
um það eru jógaæfingar sem hann tók að stunda árið 1918, svo og frásögn
hans af því þegar hann langaði heldur seinna til að verða „meiri og full-
komnari maður“; tók til við að sinna því sem hann kallar „guðspekiæfingar“
– æfingar sem þjálfa bæði einbeitingu og íhugun – auk þess sem hann gerði
jóga-hvíldaræfingar sem beindust meðal annars að því að tæma hugann.49
Og sumt af þessu að minnsta kosti nýtist honum við persónulýsingar, t.d.
þær sem byggja á eftirhermum. En eftirhermurnar sýna líka að rétt eins og
Stanislavskíj gerir Þórbergur sér ljóst, að listamaðurinn þarf ekki bara að
þjálfa athygli og einbeitingu að hætti jóga; að hafa auga á öllum einkenn-
um persónunnar sem hann vill lýsa og leitast við að tileinka sér þau. Hann
verður líka að finna til þess sem aðrir finna, eigi hann að orka sannfærandi
á þá sem hann talar til. Bent hefur verið á að leikstjórn Stanislavskíjs blasi
við í nýju ljósi eftir að spegilfrumurnar (e. mirror neurons) svokölluðu voru
uppgötvaðar um 1990 og menn lögðu niður fyrir sér tengsl þeirra og sam-
líðunar (e. empathy).50 Ljóst sé að rússneski leikstjórinn hafi af innsæi sínu
áttað sig á að samlíðun væri lykilatriði í starfi leikarans.51 Um Þórberg
46 Sjá Sergei Tcherkasski, Stanislavsky and Yoga, bls. 58–59.
47 Sjá R. Andrew White, „Stanislavsky and Ramacharaka“, bls. 83.
48 Sjá sama rit, bls. 85–87; Sergei Tcherkasski, Stanislavsky and Yoga, bls. 30 og 31.
49 Sjá t.d. Þórbergur Þórðarson, „Ljós úr austri“, bls. 153–157; Þórbergur Þórðarson,
Meistarar og lærisveinar, bls. 74–80, tilvitnun bls. 74.
50 Um samlíðun og spegilfrumur, sjá nánar Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Guðrún
Steinþórsdóttir, „„samkennd er … stundum kölluð samlíðun“. Um þýðingar á
ýmsum erlendum fræðiorðum“, Skírnir 1/2016, bls. 91–111, hér bls. 99.
51 Sjá Sharon Marie Carnicke, Stanislavsky in Focus, bls. 3.
„Að PREDiKA DÝRAVERNDUN FYRiR SOLTNUM HÝENUM“