Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 134
133
„hinnar lífrænu eða organisku epagógíkur“, þ.e. þeirrar „fræði sem fæst
við lífmagnið“ og „mun hefja fræðin um segulmagn og rafafl, á hærra stig“
(515–516).61
Úr deiglu raunvísindanna í ruslakörfu dulspekinnar
„Lífræn magnanarfræði“ Helga Pjeturss á upptök sín í dulspekilegri
heimsmyndafræði sem grundvallast á heildarhyggju. Hér er einkum vísað
til þeirra kenninga um „tilsvaranir“ sem mynda einn meginþátt vestrænnar
dulspeki, þar sem öll brot alheimsins eru talin órjúfanlega tengd öðrum í
krafti „líkinda“ eða „dulinnar samkenndar“.62 Slíkar hugmyndir, sem eru
fyrirferðarmiklar í skrifum dulspekinga á nítjándu öld og í upphafi þeirrar
tuttugustu, eru gjarnan raktar aftur til nýplatonisma og skrifa Plótínosar.63
Hugmyndin um tilsvaranir tekur á sig ólík gervi, en áhrifamest í samhengi
nútímadulspeki eru skrif Swedenborgs og skilgreining hans á tilsvörun-
um, sem finna má í bókinni Himinn og hel (De Caelo et ejus Mirabilibus et
de inferno, 1758): „Öll hin náttúrlega veröld svarar til (er endurspeglun)
hinnar andlegu veraldar, ekki aðeins hin náttúrlega veröld í almennum
atriðum, heldur og í sérhverju einstöku smáatriði. Hvað eina, sem þannig
61 Um þráðlaus boðskipti og vægi þeirra innan vísindalegrar og dulspekilegrar
orðræðu í upphafi tuttugustu aldar, sjá Jeffrey Sconce, Haunted Media. Electronic
Presence from Telegraphy to Television, Durham og London: Duke University Press,
2000. Í umfjöllun sinni um „lífgeisla“ styðst Helgi við rit Walters J. Kilner, The
Human Atmosphere, or the Aura Made Visible by the Aid of Chemical Screens (New
York: Rebman, 1911). Helgi kynnir Kilner sem „rafmagnsfræðing, vel að sér í eðlis-
fræði og tilraunamann ágætan“, segir bók hans hafa þann kost að vera „eindregið
vísindaleg, algerlega laus við alla dulrænu (Mystik) og leynifræði (Occultism)“ og
lýsir í framhaldinu megininntaki verksins: „Kilner hefir nú fundið, að orka þessi,
sem geislar af líkamanum og kalla mætti lífmagn, hagar sér að sumu leyti líkt og
rafmagn, og geislar mest af frammjóum hlutum líkamans, fingrum, nefi o.s.frv.“
(290).
62 Wouter J. Hanegraaff, Western Esotericism, bls. 124.
63 Helgi vitnar í það sem hann kallar „merkilegustu setningu sinnar aldar“ eftir
Plótínos: „Sjerhver hlutur hefir í sjer starfandi afl, sem er hans eftirmynd, svo að
þegar hluturinn er, þá er einnig aflið, og þó að hluturinn sje kyr í sama stað, þá
geisist aflið út frá honum, sumt lengra og sumt skemra“ (489). Um tilsvaranir sem
eina af undirstöðuhugmyndum vestrænnar dulspeki, sjá Antoine Faivre, Western
Esotericism, bls. 12. Um nýplatonisma og skrif Plótínosar, sjá Eyjólfur Kjalar Em-
ilsson, „inngangur“, Platon / Plótínos, Samdrykkjan og Um fegurðina, þýð. Eyjólfur
Kjalar Emilsson, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2014, bls. 9–39, hér bls.
29–38; Eyjólfur K. Emilsson, Plotinus, London og New York: Routledge, 2017, hér
bls. 373–380.
„MAGNAN AF ANNARLEGU ViTi“