Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 91
90
á aðgerðir sínar sem ósiðsamar, fyrir honum snerust gjörningarnir um að
sýna nekt mannsins í óeiginlegum og eiginlegum skilningi, að skapa rými
þar sem allar hinar margbrotnu hliðar lífsins birtust:
með aðgerðum O.M. leikhússins á allt að eiga sér stað, frá sjálfsfróun,
tíðablæðingum, venjulegum samförum, nánustu hómó-erótískum
kynmökum til öfgakenndustu birtingarmynda öfuguggaháttar sem
erótíkin nær yfir, til óhóflegrar, eyðileggjandi upplifunar kvalalosta
og sjálfspyntingar, til óskarinnar að drepa, sem beinir erótíkinni í dauð-
ann.25
Hér gerir vart við sig andóf gegn hverskyns kynferðislegum siðvenj-
um, í verkum Nitsch á gervallur skali lífs og kynhegðunar mannsins
að koma fyrir sjónir. Hann tilgreinir að Orgien Mysterien-leikhúsið26
(Kynsvallshelgileikurinn) eigi gagngert „að endurspegla gervallt líf heims-
ins: frá dauða, og kynferði, til dulhyggju“,27 en þessi upptalning varpar
ljósi á hvað Nitsch telur vera meginviðfang lífsins, sem er um leið efniviður
gjörninga hans. Þrenning dauða, kynferðis og dulhyggju myndar samofið
leiðarstef í fagurfræði hans og aðgerðum og Nitsch gerði sér að keppikefli
að nálgast þennan kjarna lífsins.
Skrif Nitsch afhjúpa hið flókna samspil á milli orðræðu klámsins og
fagurfræðinnar. Sjálfur tekur hann ótvíræða afstöðu gegn klámi innan
listarinnar og heldur því fram að birtingarmynd þess í verkum sínum sé
ekki klám, heldur gefi aðeins raunsanna mynd af veruleikanum. Nitsch
þvertekur fyrir að list sín hafi nokkuð að gera með hugtakið klám, sam-
kvæmt honum hefur klám alltaf „slæma samvisku“ vegna þess að það sýnir
framleiðsluvörur sínar aldrei af sannfæringu.28 Klámi er stillt upp sem
andstæðu O.M.-leikhússins og Nitsch tekur fram að gjörningar þess séu
„framkvæmdir af sannfæringu“. Nitsch leitast hér við að draga línu á milli
25 Hermann Nitsch, „Vortrag an der Hochschule für Film und Fernsehen“, Das
Orgien Mysterien Theater. Manifeste, Aufsätze, Vorträge, Salzburg og Vín: Residenz,
1990, bls. 25–43, hér bls. 34.
26 Orgien Mysterien-leikhúsið er höfuðverkefni og heildarlistaverk (þ. Gesamtkunst-
werk) sem Nitsch vann að áratugum saman.
27 Hermann Nitsch, „Vortrag an der Hochschule für Film und Fernsehen“, bls. 34.
28 Í þessu sambandi nefnir Nitsch að Kolle-kvikmyndir hafi einnig slæma samvisku,
enda sýni þær erótík undir öðru yfirskini. Hér vísar hann í kvikmyndir Oswalts
Kolle, sem varð frægur á sjötta og sjöunda áratugnum fyrir kynlífsfræðslu sína, en
hann gaf út fjölda bóka og kvikmynda um efnið, þ.á m. Das Wunder der Liebe (Undur
ástarinnar, 1968).
SólveiG GuðMundSdóttiR