Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Qupperneq 34
33
í ýmsar áttir og ögrar jafnt þeim sem eru predikurum líkastir í guðleysi
sínu og hinum sem eru svo þrungnir í trú sinni að þeim finnst guðlast að
menn geri sér leik að henni.
„Raunsæis“-túlkun fær til að mynda stuðning af því að Þórbergur lýsir
baksi sínu við að skilja karmakenninguna í smáatriðum og ömun sinni á
endurfæðingum sem hann telur þó víst að hann komist ekki hjá. Hann er
þar með sýnilega viðbúinn því að það sem bíður hans þegar lífi hans heldur
fram, verði ekki endilega bara notalegt og upplífgandi.97 Hinn nýi líkami
sem Þórbergur fær í frásögninni er afar léttur; hann getur henst í loft-
köstum, skriðið inn í skrokkinn sem hýsti hann forðum, smogið gegnum
veggi og þar fram eftir götunum. Ekki fer milli mála að þarna lýsir hann
einu afbrigði ljóslíkama (e. bodies of light; subtle bodies) sem eru ævagam-
alt fyrirbæri, ekki síst í Asíu, en nutu mikilla vinsælda á Vesturlöndum á
fyrsta hluta tuttugustu aldar og hafa gengið í endurnýjun lífdaga á síð-
ustu áratugum.98 Sama ár og greinin „Ljós úr austri“ birtist, kom út bók
sagnfræðingsins og guðspekingsins George R.S. Mead, The Doctrine of the
Subtle Body in the Western Tradition (Kenningin um ljóslíkamann innan
vestrænnar hefðar) en rúmum tveimur áratugum fyrr hafði heimspeking-
urinn Henri Bergson reynt að komast yfir erfiðleikana sem hann taldi jafn-
an hafa fylgt fræðilegri umræðu um tengsl huga og líkama, í ritgerð sem
hann nefndi Matière et mémoire (Efni og minni), en rit Bergson (þar sem
hann brást við skrifum Ribots um minnið) var þýtt á ensku 1911.99
Upphaflega greindu guðspekingar bara milli þriggja líkama en á níunda
áratug nítjándu aldar, þegar þeir voru orðnir ögn verseraðri í vedafræð-
97 Sjá t.d. Meistarar og lærisveinar, bls. 67–68; Matthías Johannessen, Í kompaníi við
allífið, bls. 28–29 og 34.
98 Enda þótt orðið ljóslíkamar (e. subtle bodies) sé hér notað sem yfirheiti, er ljóst að
undir það falla margvísleg fyrirbæri sem ætti ekki endilega að skipa í einn flokk,
sbr. Geoffrey Samuel og Jay Johnston, „General introduction“, bls. 1–3. Um tengsl
vestrænna og indverskra strauma í hugmyndum um ljóslíkama, sjá t.d. Jay Johnston,
„The „Theosophic Glance“. Fluid Ontologies, Subtle Bodies and intuitive Vision“,
Australian Religion Studies Review 2/2002, bls. 101–117.
99 Sbr. George R.S. Mead, The Doctrine of the Subtle Body in the Western Tradition. An
Outline of What the Philosophers Thought and Christians Taught on the Subject, London:
John M. Watkins, 1919; Henri Bergson, Matière et mémoire. Essai sur la relation du
corps avec l’esprit, Paris: F. Alcan, 1896; Henri Bergson, Matter and Memory, þýð.
N.M. Paul og W.S. Palmer, Mineola, New York: Dover, 2004 [1912]. Um Henri
Bergson og hugmyndir hans, sjá Leonard Lawlor og Valentine Moulard Leonard,
„Henri Bergson“, The Stanford Encyclopedia of Philosophy (sumarútgáfa 2016), ritstj.
Edward N. Zalta, sótt 19. september 2016 af http://plato.stanford.edu/archives/
sum2016/entries/bergson/.
„Að PREDiKA DÝRAVERNDUN FYRiR SOLTNUM HÝENUM“