Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 89
88
á að klám sé orðræða sem þarf að rannsaka innan fræðanna. Um leið og
tekist er á við klám sem orðræðu er hægt að hafna gildis mati í umræðunni
og líta á klám sem hefð sem er einfaldlega til staðar og þarfnast rann-
sóknar. Með beitingu orðræðugreiningar er gildismati og siðferðisdómum
þannig vikið til hliðar fyrir lýsingu og endursmíð á hinum menningar-
sögulega veruleika.
Orðræða klámsins á sér margar birtingarmyndir innan listheimsins.
Verk eru ýmist jákvæð eða neikvæð gagnvart klámi og klámiðnaðinum, þau
ýmist gagnrýna eða endurspegla klámvæðingu þjóðfélagsins, en að auki
gætir oft vissrar íróníu í framsetningu þess innan listarinnar.18 Klámvæðing
samfélagsins hefur gert það að verkum að klámorðræða getur jafnvel komið
fram ómeðvitað eða birst í öðrum menningarafurðum.19 Klám stendur
ekki eitt og sér heldur á það í sífelldri samræðu við aðrar orðræður. Af
þessum sökum verður viðfangsefnið ekki eingöngu rannsakað hér út frá
orðræðu klámsins, heldur verður einnig rýnt í hið gagnvirka samband á
milli kláms og orðræðu dulspekinnar eins og það birtist í nýframúrstefnu-
list aksjónismans, einkum í gjörningnum Abreaktionsspiel.
Klámfengnir aksjónistar
Aðgerðir aksjónismans innihalda fjölmargar kynferðislegar athafnir af ólík-
um toga, en lagt var kapp á að rjúfa sem flest siðaboð samfélagsins, oft með
áherslu á kynferðislegt markarof (e. transgression). Markarof vísar til þess
að fara handan leyfilegra marka og getur falið í sér að brjóta lög, bann-
18 Hans Maes og Jerrold Levinson nefna neon-skúlptúra Bruce Nauman, styttur
Jeffs Koons, málverk Johns Currin og innsetningar Judy Chicago sem dæmi um
„klámfengna list“. Sjá „introduction“, Art & Pornography, bls. 1–13, hér bls. 2. Hér
er einnig vert að minnast á sýninguna The Porn Identity sem var haldin í Kunsthalle
Wien árið 2009. Þar var fjölbreytt úrval af innsetningum og myndbandsverkum
sett upp samhliða klámmyndum. Þeirra á meðal voru skúlptúr Roberts Müller, La
Veuve du coureur (1957/2007) og The Bronze Pinball Machine with Woman Affixed Also
(1980) eftir Ed og Nancy Kienholz, verk sem er blanda af fundnum mun (fr. objet
trouvé) og skúlptúr. Auk þess mátti sjá þar fjölmargar kvikmyndir, þ.á m. verk eftir
Kenneth Anger og Carolee Schneeman samhliða nýrri myndbandsverkum á borð
við Badain (2000) eftir Nathalie Djurberg og Lovely Andrea (2007) eftir listakonuna
Hito Steyerl. Sjá Thomas Edlinger, Gerald Matt og Florian Waldvogel (ritstj.),
The Porn Identity. Expeditionen in die Dunkelzone, Nürnberg: Verlag für moderne
Kunst, 2009.
19 Sjá Sven Lewandowski, Die Pornographie der Gesellschaft. Beobachtungen eines popu-
lärkulturellen Phänomens, Bielefeld: transcript, 2012; Martina Schuegraf og Angela
Tillmann, Pornografisierung von Gesellschaft.
SólveiG GuðMundSdóttiR