Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Side 43
42
áframhaldandi siðferði. Einstaklingum sem stunda kynlíf utan hjónabands
líkir hann hins vegar við skynlausar skepnur án siðferðis.28 Kenning Kants
er alhæfandi og byggist annars vegar á mannskilningi hans og hins vegar á
skilningi hans á kynferðislegum kenndum manneskjunnar. Kynlíf sem slíkt
er siðferðilegt vandamál í hans huga en lausnin felst í að koma því kirfilega
fyrir innan vébanda hjónabandsins þar sem hann álítur að ekki þurfi að
hafa áhyggjur af því meir. Slíka ofurtrú á samkomulagi og jafnrétti innan
hjónabandsins hafa femínistar gagnrýnt um áratuga skeið fyrir að vera
blinda á kynjaðan veruleika ofbeldis og kúgunar karlveldisins.29 Hverfum
nú til femínískrar umræðu á níunda áratug síðustu aldar um orsakir og
afleiðingar kynferðislegrar hlutgervingar. Þótt ólíku sé saman að jafna
finnast snertifletir milli Kants og róttækra femínista sem áhugavert er að
skoða nánar.
Hin háskalega hlutgerving – í túlkun Catharine MacKinnon
Þekkt fyrir skrif sín um hlutgervingu er Catharine MacKinnon sem sótti
Ísland heim haustið 2015 og flutti erindi í Hörpu í tilefni hundrað ára
afmælis kosningaréttar íslenskra kvenna. MacKinnon heldur því fram að
klám hlutgeri konur, svipti þær mennsku og mannréttindum auk þess að
stuðla að kynferðislegu ofbeldi í þeirra garð.30 Réttast finnst henni að
banna klám með lögum og telur Ísland óskastað til þess vegna þess að þar
ríki mikill skilningur á jafnrétti kynjanna.31 Skaðsemi kláms og tengsl þess
við kynlíf lýsti hún einnig í Feminism Unmodified 1987:
28 Svipaðan vinkil, þ.e. að túlka hlutgervingu sem að fara niður á plan dýra, má finna
hjá femínistum eins og t.d. Andreu Dworkin í Pornography. Men possessing Women,
Perigee Trade, 1981 og hjá Carol J. Adams í The Sexual Politics of Meat. A Feminist-
Vegetarian Critical Theory, New York: Continuum, 1995.
29 T.d. R.E. Dobash og R.P. Dobash, Violence against Wives. A Case Against the
Patriarchy, New York: Free Press, 1970; R.R. Ruether, „The Western Religious
Tradition and violence against Women in the Home“, Christianity, Patriarchy and
Abuse. A Feminist Critique, ritstj. Joanne Carlson og Carole R. Bohn, Cleveland
Ohio: The Pilgrim Press, 1989, bls. 31 – 41; Diana E.H. Russell, Rape in Marriage,
New York: Macmillan Publishing, 1982.
30 viðtal ríkissjónvarpsins við MacKinnon, 23. október 2015, sótt 3. mars 2016 á:
http://www.ruv.is/frett/hefur-i-aratugi-barist-gegn-klamidnadinum. Svipaðar hug-
myndir voru uppi hjá Dworkin, Steinem og Morgan kringum 1980.
31 Skilgreining MacKinnons á klámi er: „[…] the graphic sexually explicit subordina-
tion of women through pictures or words that also includes women dehumanized as
sexual objects, things, or commodities […]“. Sjá Feminism Unmodified, Cambridge
MA: Harvard University Press, 1987, bls. 176.
SÓLvEiG ANNA BÓASDÓTTiR