Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Page 87
86
1541–1551 eða áratugurinn frá því kirkjuskipan Kristjáns iii var fyrst
samþykkt í Skálholtsbiskupsdæmi þar til hún náði staðfestingu norðan-
klerka markar sérstætt tímabil í kirkjusögu okkar sem nefna má „íslenska
skismað“(e. schism).21 Til forna var kristnin borgartrúarbrögð og söfn-
uðir í einstökum borgum mynduðu sjálfstæðar kirkjur.22 Á miðöldum
voru grannbiskupsdæmi enn í raun sjálfstæð hvert gagnvart öðru en lutu
sameiginlegri yfirstjórn erkibiskups og páfa. Á siðaskiptatímanum var
því ekki til staðar hér nein kirkjustofnun sem spannaði landið allt eins
og nú er. Á fyrrgreindum tíma kom þetta í ljós á sýnilegan máta þegar
Skálholtsbiskupsdæmi var að minnsta kosti kirkjuréttarlega séð (sjá síðar)
evangelískt-lútherskt en Hólabiskupsdæmi (Norðlendingafjórðungur) var
enn einangruð miðaldakirkja á útmörkum hins lútherska, danska ríkis.
Árabilið 1548–1550 var ofbeldisskeið í lok íslenskrar siðaskiptasögu líkt
og árið 1539 hafði verið í upphafi hennar. Í tíð Gissurar Einarssonar ríkti
friðsamleg sambúð milli biskupanna tveggja, hans og Jóns Arasonar (1484–
1550). Þessi friður var rofinn í öndverðri biskupstíð Marteins Einarssonar
(frá 1548) en Jón tók hann höndum haustið 1549 og hafði í haldi næstum
árlangt.23 Hefur þetta og annað sem á Marteini mæddi á biskupsstóli, ekki
síst eftirmál að dauða Jóns Arasonar, orðið honum um megn en hann sagði
af sér embættinu (1556) tveimur áratugum fyrir dauða sinn.24
viðbrögð miðaldakirkjunnar við siðbótinni urðu með mismunandi
móti. ýmsir úr hennar röðum snerust að einhverju leyti til fylgis við sið-
bótina þótt þeir yfirgæfu ekki móðurkirkjuna né væru útilokaðir af henni.
Beittu þeir sér fyrir umbótum sem margar hverjar voru af sama toga og
siðbótarmenn kepptu að. Þeir sem sýndu slík viðbrögð eru í erlendum
rannsóknum oft nefndir reformistar (umbótamenn) til aðgreiningar frá
reformatorum (siðbótarmönnum). Þá hófst svokölluð gagnsiðbót innan
kirkjunnar og á hún rætur að rekja til kirkjuþings sem kallað var saman
í Trídent (Trento) á Norður-Ítalíu og stóð með hléum 1545–1563. Á
grundvelli samþykkta sem þar voru gerðar var reynt að byggja kirkjuna
21 Kirkjuklofningur eða skisma gat orðið vegna langvarandi einangrunar og ólíkrar
menningarlegrar þróunar á mismunandi svæðum líkt og þegar kirkjurnar í aust-
anverðri og vestanverðri Evrópu klofnuðu hvor frá annarri um miðja 11. öld. Þá
gat svokallað „páfa-skisma“ orðið er tveir eða fleiri gerðu tilkall til embættisins.
Siðbótarhreyfingar leiddu til skisma á 16. öld og þá af kenningarlegum ástæðum.
22 Þetta má t.d. sjá í bréfum Nýja testamentisins sem flest eru rituð til kirkna eða safn-
aða í einstökum borgum eins og Róm, Korintu og Efesus.
23 vilborg Auður Ísleifsdótir, Byltingin að ofan, bls. 244–245
24 Hjalti Hugason, „Siðbót og sálarangist“, bls. 65.
HJALTi HUGASON