Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Síða 119
118
sem litið er á skitsófreníu sem röskun á kjarnasjálfsverund (e. basic selfhood)
– þ.e. á upplifun þess að maður sjái heiminn frá 1. persónu sjónarhorni og
hafi reynslu af honum sem sjálfsvera – eru fyrirbærafræðilegar rannsóknir,
þ.á m. empírískar, markvisst tengdar uppgötvunum í taugavísindum, þar
sem höfundarnir hafa trú á að með slíkri tengingu fáist betri skilningur
á geðklofa. Tvö einkenni skitsófreníu eru þá talin skipta mestu: Ofvirkni
viðbragða og þverrandi sjálfskennd sem verði til þess að mönnum fipist
tökin (tilvitundin um mikilvægi fyrirbæra og stöðugleika raskist).23
Annars staðar velta menn ekki síst fyrir sér meðferðarúrræðum og
leggja áherslu á að þegar samband manna við eigið sjálf rofnar, hafi það
áhrif á tilvitund (e. awareness) þeirra um 1. og 2. persónu – þ.e. upplifun
þeirra af sjálfum sér, sem uppsprettu eigin hugsana og gerða, hverfi – og
þeir verði aðeins færir um að horfa á sjálfa sig utanfrá. En skerðist 1. pers-
ónu tilvitundin í skitsófreníu, kemur það líka niður á sambandinu ég – þú.
Fólk sem er laust við geðtruflanir hefur ekki bara þekkingu á hvaða reglur
og viðmið gilda í samfélaginu um samskipti við aðra; það skynjar beinlínis
hvernig öðrum líður, nýtir sér innsæisreynslu sína þegar það á í skiptum
við þá og ósagða merkingu sem það deilir með þeim. Fólk með geðklofa
deilir ekki slíkri merkingu með öðrum og getur ekki skoðað tengslin við
þá nema utan frá, þ.e. í 3. persónu. Félagsheimurinn með líkamsmótuðum
sjálfum sem bregðast við tilfinningum sínum og hrærast í ýmsum hópum,
breytist þá í nöturlegt óskiljanlegt fyrirbæri, sem sá sem þjáist af geðklofa
er útilokaður frá.24 Því er ekki að undra að síðustu áratugi hafa margir – og
fleiri en þeir sem hneigjast til fyrirbærafræði – viljað leggja áherslu á sál-
fræðimeðferð við geðklofa þar sem menn væru þjálfaðir í að segja frá ævi
sinni; þeim væri hjálpað til að smíða nokkuð samfellda sögu um líf sitt;
flétta saman endurgerð af fortíðinni, reynsluna af nútíðinni og hugmyndir
sínar um framtíðina – og styrkja tilvitundina um fyrstu og aðra persónu.
23 Barnaby Nelson o.fl., „What are the neurocognitive correlates of basic self-dist-
urbance in schizophrenia?: integrating phenomenology and neurocognition. Part
1 (Source monitoring deficits)“, Schizophrenia Research 1/2014, bls. 12–19, hér bls.
15; sjá einnig síðari hluta þessara skrifa, Barnaby Nelson og fleiri, „What are the
neurocognitive correlates of basic self-disturbance in schizophrenia?: integrating
phenomenology and neurocognition Part 2 (Aberrant salience)“, Schizophrenia
Research 1/2014, bls. 20–27.
24 Sjá Giovanni Stanghellini og Paul H. Lysaker, „The Psychotherapy of Schizo-
phrenia through the Lens of Phenomenology: intersubjectivity and the Search
for the Recovery of First-and Second-Person Awareness“, American Journal of
Psychotherapy 2/2007, bls. 163–179, hér bls. 165–166.
BERGljóT SoffíA KRiSTjánSdóTTiR