Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Page 122
121
sem tengist ljóðinu lýsir kjarnaatriði þess. við fyrsta lestur er auðvelt að
halda þegar þarna er komið sögu að bókin sé á enda en eftir er Viðauki,
sem snýst um ákveðin lykilatriði í fyrri frásögn: trú, sýrulist, tengslarofin
sem fylgja skitsófreníu, svo og mikilmennskubrjálæði og ofsóknaræði í
tengslum við pólitík. Rofin eru þá líka dregin fram með mynd af málverki.
Ljóðið „BBB“ – fangamark Bjarna Bernharðs Bjarnasonar – er bjartsýnis-
ljóð og snýst um sögu ljóðmælanda og hlutverk í lífinu
Hliðartextunum er auðvitað ætlað að hafa áhrif á lesendur og þeir
hafa sennilega sérstök áhrif á bókmenntafræðinga enda reka þeir tunguna
framan í ýmsar aðgreiningar í bókmenntafræði, t.d. á ljóðskáldi og ljóð-
mælanda; raunverulegum höfundum, söguhöfundum og sögumönnum svo
ekki sé talað um aðgreiningu list- og bókmenntagreina.29 Ég hef heyrt því
haldið fram að þeir séu vitnisburður um persónu sem eigi erfitt með að
hemja hugsanir sínar í skipulagða heild.30 Það held ég að sé rangt. Í hlið-
artextunum er meðal annars vikið að ýmsu því sem sagt er frá í meginmáli
og það skoðað frá öðru sjónarhorni en þar, en mestu skiptir þó að ramm-
inn sem þeir mynda um meginmálið virðist beinlínis vera skipulögð raun-
gerving upphafs og loka sjálfs sköpunarferlis sögunnar. Það eitt að hefjast
handa við að skrá átakamikið og trámatískt lífshlaup krefst umhugsunar og
aðdraganda og kallar á nokkra sjálfshvatningu; að verkinu loknu vindur sá
sem það vann ofan af sér og gengur þannig frá öllum endum að hann sé
tilbúinn til að horfa keikur framan í lesendur. Hin hálu þrep reynist líka að
sínu leyti vera sjálfsþerapía Bjarna Bernharðs eins og kemur skýrt fram í
aðfararorðum hans: „Endurlitið var mér vissulega erfitt“, segir hann, „en
um leið styrkti það mig og losaði um margar hugarflækjur.“ (4)
Aðfararorðin vitna um að höfundur gengur þess ekki dulinn að frásögn
af eigin lífshlaupi er ekki lífshlaupið sjálft heldur endurgerð og túlkun
útmáðra lína, minninga- og myndbrota. En þó að hann geri sér ljóst hvílík
nýsköpun merkingar er jafnan fólgin í æviskrifum er honum líka í mun að
menn átti sig á að hann er sem rithöfundur að reyna að segja satt. Hann
leggur áherslu á að „Kraftbirting undirvitundar“ tengi saman ytri og innri
veruleika í formum sem séu hvorttveggja í senn endurtekin og síbreytileg
en um leið hefur hann sýnilega áhyggjur af að lesendur haldi að frásögn
29 Þó að ég kjósi t.d. að tala um sögumann er umdeilanlegt hvort ástæða er til þess,
sérstaklega í hliðartextunum þar sem færa má rök fyrir því að röddin sem talar
í ýmsum prósatextunum standi nær hinum eiginlega höfundi en hinn sviðsetti
sögumaður í frásögninni af lífshlaupinu.
30 Hér vísa ég til einkasamtala við félaga mína.
„ÓMSTRÍðUR TAKTUR KviKRA STRENGJA“