Skírnir - 01.04.2002, Blaðsíða 58
52
HELGA KRESS
SKÍRNIR
Móðir hans kenndi honum að syngja. Og eftir að hann var orðinn fulltíða
maður og hafði hlustað á söng heimsins, þá fannst honum að ekkert væri
æðra en mega hverfa aftur til hennar söngs. I hennar söng bjuggu hjart-
fólgnustu og óskiljanlegustu draumar mannkynsins. Þá voru móarnir
vaxnir við himininn. Söngfuglar loftsins hlustuðu undrandi á þennan
söng; fegursta söng lífsins.14
Söngur móðurinnar er söngur lífsins, náttúrunnar og upprunans.
Hann tilheyrir barninu, en lifir ekki í samfélaginu öðruvísi en sem
minning. Hann verður hvorki sviðsettur né keyptur, og honum
geta engir alheimssöngvarar náð.
Tónlist og tungumáli lýstur saman í mörgum verkum Hall-
dórs, þar sem átökin eru oft persónugerð í tónlistarmanni, einkum
söngvara, annars vegar, og rithöfundi hins vegar. Þetta má m.a. sjá
í smásögunni „Lilju“ sem Halldór samdi um sama leyti og Sjálf-
stœtt fólk. Sögumaðurinn, sem jafnframt er rithöfundur og er sí-
fellt að vísa í sjálfan sig, tekst þar á við gamlan, nafnlausan söngv-
ara sem syngur alltaf eitt og sama lagið. Þessu lagi reynir sögu-
maðurinn/rithöfundurinn að lýsa. Samkvæmt Roland Barthes er
ekki hægt lýsa tónlist með orðum, og þeir sem það reyna gera það
með innantómum lýsingarorðum, sem Barthes telur aumasta
flokk málfræðinnar.15 Þetta gerir líka sögumaðurinn í „Lilju" sem
reynist heldur ekki góður rithöfundur, og það er athyglisvert að
hann getur aðeins lýst söngnum sem línuréttum, eins og striki.
Samt reynir hann að lýsa röddinni fremur en laginu. „Það var
súngið upp aftur og aftur með grárri röddu, sem var einsog
hlykkjótt og loðið strik.“16 Þetta lag syngur söngvarinn aftur og
aftur með löngum þögnum, en „eftir drykklánga stund þá fór
aftur að heyrast eitthvert skræmt, og þetta skræmt var að basla við
að verða að tónum, en lángar þagnir á milli, og það var auðheyrt
að lagið hélt áfram að lifa í brjósti saungvarans, þó röddin væri hás
og sprök og tónarnir kendu grunns á raddfærunum.“ (211) Þessi
maður býr í píanókassa niðri við höfn, og er því tónlistarlíkami í
14 Halldór Kiljan Laxness, Sjálfstxtt fólk I, Reykjavík: E. P. Briem, 1934, bls. 309.
15 „Le grain de la voix,“ L’obvie et l’obtus, bls. 236-37.
16 Vitnað er til útgáfu sögunnar í Halldór Kiljan Laxness, Þœttir, Reykjavík:
Helgafell, 1954, bls. 211.