Skírnir - 01.04.2002, Blaðsíða 203
SKÍRNIR
MENNTUN, REYNSLA OG HUGSUN
197
mynd hans um eðli nútímans og um þá grundvallarbreytingu sem hann
telur hafa orðið á lífsháttum við tilurð nútímasamfélags. Greiningu
Deweys svipar mjög til þess hvernig Alasdair Maclntyre greindi nútím-
ann síðar í bók sinni After Virtue sem varð eitt lykilrita svokallaðrar
dygðasiðfræði. Munurinn er sá að Dewey tekur nútímann sem gefinn en
Maclntyre boðar afturhvarf til hugsunarháttar og verðmætamats fyrri
tíma og verður því að teljast íhaldssamur gagnrýnandi nútímans.16
Dewey bendir á að í nútímasamfélagi berjist menn á mörgum vígstöðvum
samtímis þar sem þörf er ólíkra hugmynda, hæfileika og skilnings. Þess
vegna telur hann dygðasiðfræði í anda Grikkja lítt stoða þegar um er að
ræða þann siðferðisvanda sem nútímamenn eiga við að etja. Siðfræði eigi
fyrst og fremst að auðvelda okkur að hugsa um siðferðileg verðmæti og
setja þau í samband við önnur verðmæti og sjálfsskilning. Hinn siðferði-
lega hugsandi maður sjái samhengið í þessu öllu og sé fær um að glíma við
siðferðisvanda án þess að binda sig við einhlíta mælikvarða.17
Siðfræðikenning Deweys er því meginhugmynd sem varðar jafnt
mannlega breytni og sálarlíf. Henni má beita þegar tekist er á við mót-
sagnir í lífinu og þegar reynt er að finna leiðir út úr vanda gilda og siða-
dóma í opinberu lífi. Hvaða verðmæti á að taka fram yfir önnur? Hvern-
ig ber okkur að meta áhættu? Hvaða ályktanir getum við dregið um af-
leiðingar verka okkar og hvaða þýðingu hefur það fyrir athafnasvið okk-
ar? Afstaða Deweys snertir ýmsan þann vanda sem við þekkjum vel úr
samtímanum og varðar t.d. umhverfismál, beitingu tækni, viðskipti og
vísindarannsóknir. Hann bendir á að það besta sem við getum vænst af
siðfræðikenningu er að hún skerpi vandamálið fyrir okkur. Við getum
ekki gert þá kröfu til siðferðilegrar yfirvegunar að hún skili okkur próf-
anlegum niðurstöðum í þeim skilningi að aðrir geti við aðrar aðstæður
fengið sömu niðurstöðu. Prófanlegur í siðferðilegum skilningi merkir að
gera megi grein fyrir leiðinni sem farin var að niðurstöðunni. Við getum
tekið dæmi af íslenskri umræðu um umhverfismál til að skýra þetta: Það
er sama hversu miklar umræður fara fram og hversu miklum gögnum er
safnað á báða bóga til að færa rök með og á móti virkjanaframkvæmdum
16 Alasdair Maclntyre, After Virtue, Duckworth, Lundúnum, 1981, bls. 204-225.
Dygðasiðfræðingar hafa lagt áherslu á tvennt. í fyrsta lagi á almenna farsældar-
hugmynd um siðferði sem dæmir persónuleika og líferni frekar en eir.stakar at-
hafnir og leitar fanga í grískri fornaldarheimspeki frekar en í kenningum nýald-
ar. í öðru lagi á harmóníu eða samhljóm þar sem helsta bölið í lífi einstakling-
anna og samfélagsins er togstreita og árekstrar. Það er rétt að taka fram að
Maclntyre deilir ekki skilningi á pragmatisma með höfundi þessarar greinar.
Hann telur pragmatisma eins konar „preparatio evangelica" hrifhyggjunnar, sjá
After Virtue, bls. 66.
17 John Dewey, „Three Independent Factors in Morals" [1930], The Essential
Dewey, 2. bindi, Indiana University Press, Indianapolis, 1998, bls. 316.