Skírnir - 01.04.2002, Blaðsíða 208
202
JÓN ÓLAFSSON
SKÍRNIR
Hugsun og menntun kom fyrsta sinni út árið 1910. Hún seldist brátt í
stórum upplögum og var endurútgefin árlega næstu 20 árin.31 Bókin var
gefin út í endurskoðaðri mynd árið 1933 og lengdi það lífdaga hennar, þó
að hún yrði ekki aftur sú grundvallarkennslubók sem hún hafði verið á
öðrum og þriðja áratugnum. Það er þessi seinni útgáfa bókarinnar sem
Gunnar Ragnarsson hefur kosið að þýða á íslensku. Hugsun og menntun
var í senn yfirlit yfir hugmyndir Deweys um menntun og uppeldi, og
kennslubók sem hentaði kennurum og foreldrum ágætlega, að því gefnu
að menn væru í meginatriðum fylgjandi kenningum Deweys. Hugsun og
menntun höfðaði því vissulega til margra, enda var Dewey mikið kapps-
mál að sýna fram á að menntun væri ekki aðeins málefni skólakerfisins
heldur ætti hver einstaklingur að láta sér annt um menntun sína og getu
til að ná vitsmunalegum tökum á umhverfi sínu.32
Hugsun og menntun
Hugsun og menntun skiptist í 3 hluta og 19 kafla. Fyrsti hlutinn, 1.-4.
kafli, fjallar um þjálfun í að hugsa þar sem Dewey reynir einkum að skýra
hvað hann á við með hugsun og hvað felist í því að þjálfa hugsunina. Skól-
inn á að veita nemendum þjálfun í því að hugsa í víðum skilningi þess
orðs. Annar hlutinn, 5.-12. kafli, er eiginlegt ágrip af rannsóknarkenn-
ingu Deweys og ber hann heitið „Um rökfræði og aðferðir“ í þýðingu
Gunnars. Þessi hluti bókarinnar er ágætt yfirlit yfir rökleiðsluaðferðir,
hugtök og meðferð þeirra og væri prýðileg kennslubók í gagnrýnni hugs-
un, ef ekki væri fyrir hugtakanotkun Deweys sem er dálítið frábrugðin
því sem nú tíðkast. Þriðji og síðasti hlutinn, 14.-19. kafli, gerir nánari
grein fyrir þjálfun hugsunar og beinir Dewey sjónum sínum þar að skóla-
starfi og uppeldi.
„Hvað er hugsun?“ spyr Dewey í fyrstu köflum bókarinnar og svarar
þeirri spurningu með því að lýsa náttúrlegu ferli viðbragða við umhverf-
isaðstæðum sem fela í sér ályktanir og væntingar. Hugsun, í skilningi
Deweys, kemur fram í glímu við vanda af öllu tagi. Gæði hugsunarinnar
og það sem þjálfun hennar hlýtur að miða að, felst ekki í neinu öðru en
að vanda sem mest til verka.
Þessi verklegi skilningur Deweys á hugsun er eitt aðaleinkenni heim-
speki hans, eins og fram hefur komið. Hann gengur þó lengra: Fyrir
Dewey er hugsun eða, í örlítið þrengri skilningi, rannsókn, uppspretta
gilda og staðreynda. Það er að segja, umhverfið hefur ekki merkingu eitt
og sér án hugsunar. Hugsunin er verk mannsins sem bregst við umhverfi
31 Sjá athugasemdir ritstjóra í John Dewey, The Middle Works, 6. bindi, bls. 523.
32 Dewey 2000a, bls. 53-55.