Skírnir - 01.04.2002, Blaðsíða 111
SKÍRNIR
UPPREISN ÆSKUNNAR
105
bætandi á einhvern hátt.27 í Flóres sögu er lögð áhersla á visku og
lærdóm þar sem elskendurnir eru saman við lestur grammaticam
og eru flugmælt á latínu (8-10). Sagan er full af lærðum útúrdúr-
um um ástina og undur hennar. Vottar fyrir skáldlegri skýringar-
hyggju þar sem mikið er gert af því að draga almennan lærdóm af
hinni sértæku sögu, eins og í þessari klausu: „En þat þarf eigi at
undraz, at hann mælti svá, fyrir því at ástarfullr maðr kemr því
fram, er hann vill, ef hann leggr mikinn hug á; ok þat vátta Kalídes
ok Pláto“ (27). Það er ekki síst hið stöðuga mas um ástina sem fell-
ur hvorki að íslenskri menningu 12. og 13. aldar né nú, stöðugt er
verið að skilgreina og tala um það sem hefð er fyrir á norrænu
menningarsvæði að þegja um. Þannig er orðið „unnasti" mikið
notað (t.d. 61, 69) en það er sjaldgætt í frumsömdum íslenskum
bókmenntum.28
Þegar Flóres kemur til Babýloníu er hann ráðalaus, þekkir eng-
an og veit ekki hvað til bragðs skal taka. Ffann fer þá að rökræða
stöðu mála við sjálfan sig og vega og meta alla kosti. Er hann fyrst
á því að snúa aftur heim enda hafi honum liðið betur þar sem kon-
ungssyni en sem „fóli“ í útlöndum. En þá man hann skyndilega
eftir unnustu sinni: „Er þat ok satt, þóat ek ætta alla vergldina, þá
vilda ek heldr Blankiflúr" (41). Þannig eru skynsemi Flóres og til-
finningar í viðræðu. Sýnt er að tilfinningar og skynsemi eru ná-
tengd. Og í ástinni er jafnan nokkur skynsemi eins og öðrum
verkum mannanna.
Allnokkuð er gert úr andstæðum heiðni og kristni í sögunni,
enda mætast þegar í upphafi heiðin ofbeldismenning og kristnir
pílagrímar. Tekið er fram að sverð hermanna föður Flóres hafa bit-
ið „betr en pílagrímsstafir“ (3) þó að engin sérstök þörf sé á, til
þess eins að vekja athygli á andstæðunum heiðni og kristni, of-
27 Sjá Jaeger, The Origins of Courtliness, 195-272; Jaeger, The Envy of Angels,
292-324. Um lærdóm í Flóres sögu og lestrarnám almennt hefur Ásdís Egils-
dóttir nýlega fjallað („Að kunna vort mál að ráða,“ Lestrarbókin okkar:
Greinasafn um lestur og lasi. Reykjavík 2000, 25-38, einkum bls. 33-34).
28 Johan Fritzner, Ordbog over Det gamle norske sprog III. [2. útg.J Kristiania
1896, 790. Orðið virðist lítið sem ekkert notað nema í þýðingum samkvæmt
dæmum í seðlasafni Fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn (ONP).