Skírnir - 01.04.2002, Blaðsíða 120
114
SIGRÍÐUR ÞORGEIRSDÓTTIR
SKÍRNIR
Habermas er að sýna fram á að íbúar evrópskra ríkja geti þróað
með sér einhvers konar yfirþjóðlega vitund sem borgarar Evrópu.
Habermas gengur m.a.s. svo langt að halda því fram að slík vitund
sé ekki aðeins æskileg heldur beinlínis óhjákvæmileg þar sem við
sem búum í Evrópu erum í kjölfar hnattvæðingarinnar á vissan
hátt vaxin upp úr þjóðríkjum okkar. Af þessum sökum velur
Habermas greinasafni sínu um þetta efni titilinn Die postnationale
Konstellation, sem má þýða sem „aðstæður eftir tíma þjóðríkis-
ins“.3 Hann útfærir þessa hugmynd enn frekar í nýrri grein þar
sem hann færir rök fyrir því að Evrópa þurfi á sameiginlegri
stjórnarskrá að halda.4 Ég mun einkum beina sjónum mínum að
hugleiðingum Habermas um „samstöðu meðal ósamstæðra"
(Solidaritat unter Fremden), en þær hverfast um leiðir til að styrkja
Evrópusambandið og hin einstöku ríki innan þess. Það er m.ö.o.
trú Habermas að íbúar landa Evrópusambandsins geti þróað með
sér raunverulega samstöðukennd. Vissulega gerir hann sér grein
fyrir að slík samstaða er bæði tilbúin og veik samanborið við sam-
heldni þjóðar sem á sér sameiginlegan menningararf, mikla sögu
erfiðra fórna og glæstra sigra. Til að efna orð sín verður Habermas
því að geta sýnt fram á hvernig samstaða geti myndast meðal
ósamstæðra ríkja í Evrópu þótt ekki sé til evrópsk þjóð. En hvers
vegna er þörf á þróun slíkrar Evrópuhyggju? Meginskýring Hab-
ermas er sú að nauðsynlegt sé að styrkja lýðræðið í Evrópu, en
forsendur þess hafa breyst í kjölfar hnattvæðingar. Um þetta segir
hann: „Við getum einungis brugðist skynsamlega við ögrunum
hnattvæðingarinnar ef okkur tekst að þróa nýjar gerðir lýðræðis-
legrar sjálfstýringar samfélagsins eftir tíma þjóðríkisins. Þess
vegna vil ég kanna skilyrði lýðræðislegra stjórnmála handan þjóð-
ríkisins og tek Evrópusambandið sem dæmi um það.“5 Til þess að
3 Jiirgen Habermas, Die postnationale Konstellation. Politische Essays, Frankfurt
M.: Suhrkamp, 1998. Einnig má finna grein eftir Habermas á ensku um sama
efni, „The European Nation-State and the Pressures of Globalization", í New
Left Review, 235 (1999), 46-59.
4 Jurgen Habermas, „Braucht Europa eine Verfassung?", í Zeit der Uhergange,
Frankfurt M.: Suhrkamp, 2001, 104-132.
5 Júrgen Habermas, „Die postnationale Konstellation und die Zukunft der
Demokratie“, í Die postnationale Konstellation, 134.