Skírnir - 01.04.2002, Blaðsíða 158
152
ÞORSTEINN ÞORSTEINSSON
SKÍRNIR
ekki einkum fólgið í byltingarkenndu myndmáli, róttækri
málnotkun eða öðrum stílbrögðum. Þá ályktun dreg ég meðal
annars af því hve sterkt kvæðið orkaði á mig þegar ég las það fyrst,
líklega fjórtán ára gamall og vitaskuld ekki þaulvanur ljóðalesari.
- Það sem hreif þá Vökuritstjóra hefur að minni hyggju verið það,
í fyrsta lagi, að kvæðið er voldugur skáldskapur,22 sem reyndar er
afar sjaldgæfur og alltaf ferskur og nýr, í öðru lagi hrynjandi
kvæðisins, og í þriðja lagi ákveðin þemu sem voru ný, eða að
minnsta kosti óalgeng, í íslenskum skáldskap. En að ytra formi er
kvæðið ekki byltingarkennt, það fylgir daktýlskri hrynjandi að
mestu og ljóðstafasetning er í fullu samræmi við íslenska ljóðhefð.
Kvæðið er að vísu órímað, en nýstárlegra er það að erindaskipan
er óregluleg og lýtur í öllu þörfum efnisins eins og fríljóð væri,23
ljóðlínulengd sömuleiðis, og þetta tvennt veldur því að hrynjandi
kvæðisins, bæði efnisleg og hljómræn, verður ákaflega lifandi og
blæbrigðarík en ekki vélræn eins og oft vill verða þegar erinda-
skipan og bragur allur er mjög reglulegur. Myndir eru ekki
langsóttar en afar grípandi. Og þríliðirnir valda miklu um áhrifa-
mátt kvæðisins, gæða það hægum, þungum og elegískum tóni. Að
nýstárlegum þemum kvæðisins hef ég vikið aðeins hér að framan.
Hverskonar kvæði er „Söknuður“?
Ingi Bogi leiðir að því rök (25) að Jóhann hafi samið „Söknuð“
síðsumars eða haustið 1926. Þá er expressjónisminn ekki lengur á
dagskrá í þýskri ljóðagerð. Hann var reyndar að mestu liðinn
undir lok þegar Jóhann kom til Þýskalands haustið 1921. Ef leita
á skyldleika með „Söknuði" við þýskan samtímaskáldskap eins og
Ingi Bogi setur sér (27-28) má því þegar af þeim sökum afskrifa þá
stefnu að mínum dómi. Öðru máli gegnir um hinn mikla bálk
Rilkes Duineser Elegien sem kom út haustið 1923 og er almennt
22 Það er skáldskapur of the first intensity (af fyrstu styrkleikagráðu) eins og T.S.
Eliot komst gjarna að orði.
23 Eysteinn Þorvaldsson talar um ,frjálsa hrynjandi' „Saknaðar" (Atómskáldin,
bls. 60). En kvæðið er hálfmetrískt, skipað bragliðum, og því ekki fríljóð,
hrynjandi þess ekki frjáls þó að hún sé óregluleg. Eða svo skil ég þessi hugtök.