Skírnir - 01.04.2002, Blaðsíða 183
SKÍRNIR
ENDALOK SOGUNNAR ...
177
I
Áður en við göngum með gagnrýnu hugarfari inn í öngstræti frjálslynd-
isstefnu nútímans skulum við gefa henni orðið í líki frægasta spámanns
tilgátunnar um endalok sögunnar, það er að segja Bandaríkjamannsins
Francis Fukuyama. Að sumarlagi hið örlagaríka ár 1989 - nokkrum mán-
uðum fyrir fall Berlínarmúrsins - birti hann grein í bandaríska tímaritinu
The National Interest sem bar heitið „The end of history?".4 Þessi grein
vakti gríðarlega athygli og skörp viðbrögð, eins og Fukuyama bendir
sjálfur á, „í fyrstu í Bandaríkjunum, en síðan í fjölmörgum öðrum og
býsna ólíkum löndum: á Englandi, í Frakklandi, á Italíu, í Sovétríkjunum,
Brasilíu, Suður-Afríku, Japan og Suður-Kóreu“.5 Samkvæmt Fukuyama
voru þau áköfu viðbrögð sem greinin vakti að vissu marki lituð af mis-
skilningi varðandi þá merkingu sem hann lagði í orðið „saga“: „Það sem
ég hélt fram að hefði tekið enda“, skrifar hann, „var ekki hin almenna ‘röð
atburða’, ekki einu sinni stórra og alvarlegra atburða, heldur Sagan: það
er að segja, sagan skilin sem heildstætt og samfellt þróunarferli þar sem
reynsla allra þjóða á öllum tímum er tekin með í reikninginn."6 Til þess
að skýra betur hugtök sín og hugmyndir skrifaði Fukuyama bók sem var
gefin út árið 1992 undir heitinu The end of history and the last man. Er
skemmst frá því að segja að bók þessi var í snarhasti þýdd á fjölmörg
tungumál og varð að metsölubók um allan heim, auk þess sem fjölmiðlar
hvarvetna hömpuðu henni óspart. Því verður vart í móti mælt að sú mikla
athygli sem hugmyndir Fukuyama vöktu hlýtur að teljast mikilvæg rök-
semd fyrir því að taka þær alvarlega og sýna þeim fulla virðingu - eins
þótt einhverjum kunni að þykja þær of einfeldningslegar til að teljast um-
ræðu verðar. Svo gripið sé til líkingar þá má segja að Fukuyama hafi tek-
ið að sér hlutverk barnsins í „Nýju fötunum keisarans“ með því að hann
hafði orð á því sem allir létu nægja að hugsa með sér, hver í sínu hugskoti.
Því má segja að skrif Fukuyama séu birtingarmynd tiltekins almenns sam-
komulags um óskoraða og endanlega yfirburði hins frjálslynda lýðræðis
að vestrænni fyrirmynd og að af þeirri ástæðu einni saman séu hugmynd-
ir Fukuyama allrar athygli verðar.7 Einnig er rík ástæða til að hafa í huga
að enda þótt tilgátan um endalok sögunnar gangi ekki lengur fjöllunum
hærra þá lifir hún góðu lífi um þessar mundir í hugmyndum um nauðsyn
og óskorað ágæti svokallaðrar hnattvæðingar, heimsvæðingar eða al-
þjóðavæðingar efnahagslífsins sem sagt er að verði að fá að fara sínu fram
4 Francis Fukuyama, „The end of history?", The National Interest 16 (sumar
1989), bls. 3-18.
5 Francis Fukuyama, The end of history and the last man, Lundúnum, Penguin
Books 1992, bls. xi.
6 Sama rit, bls. xii.
7 Sbr. Derrida, Spectres de Marx, bls. 115.