Skírnir - 01.04.2002, Blaðsíða 204
198
JÓN ÓLAFSSON
SKÍRNIR
á hálendinu. Þegar upp er staðið á ákvörðunin, ef allt er með felldu, eftir
að ráðast af mati á því hvaða verðmæti eru í húfi. Meginkrafan til siðferði-
legrar umræðu snýst því um heilindi, um að allt mat, öll niðurstaða sé
fengin heiðarlega og á þeim forsendum sem gefnar eru. En þetta er reynd-
ar sama krafa og við gerum til vísinda og rannsókna yfirleitt. Siðfræði-
kenning Deweys er því í raun kenning um siðferðilega rannsókn, rétt eins
og rökfræðikenning hans er kenning um vísindalega rannsókn.18
Erindi pragmatismans
Pragmatismi tekur eindregna afstöðu gegn öllum forskilvitlegum eða
fyrirframgefnum rökum og gefur sér ekki aðrar forsendur en þær að með
rannsókn megi ná tökum á og jafnvel valdi yfir reynslunni. Þessi þekking-
arfræðilega og verufræðilega afstaða tekur um leið mið af samfélaginu.
Heimspekilegur pragmatismi grundvallast á samskiptum og boðskiptum
fremur en tengslum við meintan hlutlausan veruleika. Þannig geti aldrei
verið um hlutlausa viðtöku að ræða. I öllum samræðu- og orðræðukerfum
skipti þátttakandinn ekki minna máli en viðfang orðræðunnar. Frá þessum
sjónarhóli er auðvelt að sjá hvernig þekking og reynsla mismunandi þjóð-
félagshópa hlýtur að vera mjög ólík og að mikilvægasta verkefni heim-
spekinnar sé fólgið í því að skilja forsendurnar fyrir sanngjörnum sam-
ræðuvettvangi. Heimspekingar á borð við Júrgen Habermas finna til mik-
ils skyldleika við gömlu pragmatistana af þessum sökum, þó að þeir eigi
minna sameiginlegt með yngri pragmatistum, eins og Richard Rorty.19
Það er freistandi að setja endurreisn pragmatismans í samband við
stjórnmála- og vísindaþróun síðasta áratugar. Einræðiskerfi heyra nú að
mestu sögunni til. Stjórnarskrár- og þingbundið lýðræði er orðið viðtekið
form stjórnskipunar. En sigur lýðræðis í heiminum er þó mjög langt frá því
að leysa allan vanda. Þvert á móti blasa vankantar lýðræðisins við hvert
sem litið er. Valdabarátta, úrræðaleysi, spilling og peningaleysi einkennir
alþjóðastjórnmál líðandi stundar. Þeirri heimspekilegu afstöðu sem Dewey
predikaði verður hins vegar ekki mótmælt með því að benda á vankanta
lýðræðisins. Dewey var ekki heimspekilegur einfeldningur í þeim skilningi
að hann héldi að lýðræði fæli í sér endanlega lausn á vandamálum manna,
enda taldi hann að slíkar lausnir væru í eðli sínu blekking. Kostur lýðræð-
isins væri ekki sá að það hlyti að leiða til fullkomins samfélags, heldur væri
lýðræði samfélagsskipun sem hafnaði kerfisbundinni blekkingu.20
18 Sjá nánar um þetta Jón Ólafsson, Conflict and Metkod: An Essay on Dewey,
Columbia University, New York, 2000, doktorsritgerð, bls. 251-291.
19 Habermas tilv. rit, bls. 51—52.
20 John Dewey, „Creative Democracy" [1939], The Essential Dewey, 1. bindi,
Indiana University Press, Indianapolis, 1998, bls. 341 og 343.