Skírnir - 01.04.2002, Blaðsíða 182
176
BJORN ÞORSTEINSSON
SKÍRNIR
ríkjunum, en einnig í Frakklandi og víðar - til dæmis á íslandi.1 En á síð-
ustu árum hefur ný sýn á verk Derrida verið að ryðja sér til rúms, í fyrstu
einkum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Þessi nýja túlkun leggur megin-
áherslu á siðferðilega og pólitíska þætti í hugmyndum Derrida.2 I raun
þarf ekki mikilla rannsókna við til að sjá að hugsun Derrida hefur í æ rík-
ari mæli beinst að „verklegum" álitamálum í samtímanum í stað þeirrar
áherslu sem hann lagði áður fyrr á hreinar „fræðilegar“ vangaveltur um
hugtök á borð við skilafrest (fr. différance), ummerki (fr. trace) og návist
(fr.présence). Segja má að framan af höfundarverki sínu hafi Derrida ein-
beitt sér að því að móta hugmyndir sem í framhaldinu urðu kveikjan að
þeirri stefnu í heimi hugmyndanna sem nefnd er afbygging (fr.
déconstruction). Um og eftir 1990, þegar afbyggingarstefnan var orðin
staðreynd og Derrida horfðist í augu við það, nokkuð gegn vilja sínum,
að mega kallast „faðir“ hennar, gerði hann að hugðarefni sínu að sýna í
verki fram á að hin svokallaða afbygging hefði (eða ætti að hafa) siðferði-
legt og pólitískt inntak, þvert á það sem dyggustu fylgismenn jafnt sem
römmustu andstæðingar stefnunnar héldu fram.3 Ein þeirra bóka sem
bera þessari viðleitni Derrida vitni er sú sem hér verður höfð til hliðsjón-
ar, það er að segja Vofur Marx. Tilgangurinn með grein þessari er meðal
annars að færa lesendum heim sanninn um að Jacques Derrida sættir sig
ekki við tómhyggjunafnbótina umyrðalaust. Hitt er svo auðvitað annað
mál hvort hugmyndir hans séu „í raun“ þess eðlis að á grundvelli þeirra
megi reisa nýja pólitíska hugsun - hugsun sem segði sig afdráttarlaust úr
lögum við hvers kyns tómhyggju og héldi á loft altækum gildum eða hug-
sjónum af einhverju tagi. Svarið við þeirri spurningu liggur ekki fyrir hér
og nú; hún bíður úrlausnar. Hvað samtímann snertir ætti enginn að þurfa
að velkjast í vafa um að Derrida er boðinn og búinn að leggja þeim lið sem
láta sér ekki nægja að brjóta niður hvað sem fyrir verður eða lofsyngja
ástand mála í blindni, heldur takast á við strauma og ládauða hyli í heimi
hugmynda og athafna - hér og nú.
1 Þannig hefur Kristján Kristjánsson þau orð um afbyggingu að hætti Derrida að
hún sé „efagjarn trúðleikur, tilgangslaust fálm“ (Kristján Kristjánsson, „Tíðar-
andi í aldarlok, 3. hluti: Forsprakkar póstmódernismans", Lesbók Morgunblaðs-
ins 20. sept. 1997).
2 Sbr. til dæmis Simon Critchley, The Ethics of Deconstruction: Derrida and
Levinas, Oxford, Blackwell 1992; Richard Beardsworth, Derrida and the polit-
ical, Lundúnum og New York, Routledge 1996; Chantal Mouffe (ritstj.),
Deconstruction and pragmatism, Lundúnum og New York, Routledge 1996.
3 Derrida gerir hvað skýrasta grein fyrir þessum hugmyndum sínum um siðferði-
legt inntak afbyggingarinnar í fyrsta kafla bókar sinnar Force de loi: Le
„Fondement mystique de l’autorité“, París, Galilée 1994; sjá einnig Jacques
Derrida, Limited Inc., París, Galilée 1990, einkum bls. 201-285.