Skírnir - 01.04.2002, Blaðsíða 171
GREINAR UM BÆKUR
ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR
Kvenna megin
Sigríður Þorgeirsdóttir
Kvenna megin: Ritgerðir um femíníska heimspeki
Hið íslenska bókmenntafélag, 2001
Mikið gleðiefni er að út sé komin bók á íslensku um femíníska heim-
speki. Ég held að ekki sé á neina hallað að segja að sú sem þar heldur á
penna sé brautryðjandi á því sviði hér á landi. Bókin er safn greina sem
flestar birtust í fagtímaritum á árunum 1993 til 1999 og er fengur í því að
hafa þær allar saman komnar á einni bók ásamt áður óprentuðum grein-
um. Hér kennir margra grasa. Sumar greinarnar fjalla um einstaka heim-
spekinga og kenningar þeirra, aðrar tengja heimspekilega umræðu við ís-
lenskan veruleika, þá sérílagi íslenska kvennapólitík. Sérstaklega finnst
mér fengur í greinunum af síðara taginu. I umfjöllun minni ætla ég að lýsa
femínískri heimspeki eins og hún kemur mér fyrir sjónir um þessar
mundir og staðsetja skoðanir Sigríðar í því landslagi.
Hvað er femínísk heimspekif
Hvað er femínísk heimspeki og hvaða erindi á hún við femínista og heim-
spekinga almennt? Femínísk heimspeki getur verið annað tveggja: greining
á, og umræða um, ákveðin hugtök og fyrirbæri sem eru nauðsynleg til að
skilja stöðu kvenna og leiðir til að bæta hana. Eru þá talin með hugtök eins
og kyn og kynferði, frelsi, kúgun, sjálfræði, kynjun, kenningakerfi, eðli,
atlæti og jafnrétti. Það er nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að leggja til
nýjar leiðir til að bæta stöðu kvenna að hafa til hliðsjónar kenningar um
að hvaða leyti stöðu kvenna sé ábótavant og hvað felist í bættri stöðu.
Hvers konar mælikvarði er við hæfi þegar meta á stöðu kvenna? Hvað á
að miða við þegar hvatt er til breytinga? Spurningar af þessu tagi eru ær
og kýr femínískra heimspekinga sem femínista almennt.
Hitt einkennið á femínískri heimspeki felst í ákveðinni aðferðafræði.
Einkum er þá leitast við að sýna fram á að mörg hugtök og mælikvarðar,
sem venja er að álíta algjörlega hlutlæg, séu í rauninni gildishlaðin. Gild-
in sem um ræðir geta verið kynleg og felst gagnrýni femínískra heimspek-
inga þá gjarnan í því að sýna fram á að gildin, viðmiðanirnar og mæli-
kvarðarnir séu kynjuð þegar öllu er á botninn hvolft. Þess háttar gagnrýni
getur verið misróttæk, en ég mun víkja að því nánar hér á eftir.
Skímir, 176. ár (vor 2002)