Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Page 6
S a lv ö r N o r d a l
6 TMM 2012 · 1
niðurstöðu nefndanna. Fór svo í báðum tilfellum að oddvitar nefndanna
lögðu fram tillögur í eigin nafni.
Þá er vert að geta viðamikils starfs nefndar Jóns Kristjánssonar sem
starfaði á árunum 2005–7 en því starfi lauk án þess að nokkrar tillögur
um breytingar væru lagðar fram á Alþingi.
Þegar litið er yfir feril endurskoðunar stjórnarskrárinnar blasir
að minnsta kosti tvennt við. Annars vegar hafa nefndir á vegum
Alþingis ekki náð sameiginlegri niðurstöðu um breytingar. Hins vegar
hefur umræðan um endurskoðunina oft verið á hendi fárra fræði-
manna og stjórnmálamanna. Þeir sem mest voru áberandi í umræðum
um breytingar á stjórnarskránni framan af voru mikilsvirtir stjórn-
málamenn eins og þeir Bjarni Benediktsson, Gunnar Thoroddsen,
að ógleymdum Ólafi Jóhannessyni en þeir voru allir prófessorar við
lagadeild Háskóla Íslands. Þeir voru líka allir sérfræðingar í stjórn-
skipunarrétti, og áttu því mikinn þátt í að móta fræðilega umræðu á
sviðinu.
Síðan hafa nýir fræðimenn og stjórnmálamenn tekið við keflinu,
hópurinn hefur stækkað og tengsl akademíunnar og stjórnmálanna
rofnað að mestu. Þó eru einkum lögfræðingar áberandi í þessari
umræðu, eins og málstofur lagadeildanna um frumvarp stjórnlagaráðs
síðasta haust endurspegla. Stjórnarskráin er þó ekki aðeins lögfræðilegt
plagg. Hún er sáttmáli þjóðar um grunnlög og hlýtur að byggja á
ákveðnum hugmyndagrunni. Því þarf fjölbreyttur hópur fræðimanna
að láta sig málið varða, og ekki síður almenningur, eins og var raunar
markmiðið með endurskoðun stjórnarskrárinnar núna.
Núverandi endurskoðun
Markmið þeirrar endurskoðunar sem hófst með lögum um stjórnlaga-
þing 2010 var einkum að virkja almenning til þátttöku. Ástæðuna má
rekja til þess að þær atrennur sem gerðar hafa verið til heildarendur-
skoðunar á stjórnarskránni, og leiddar hafa verið af þingmönnum,
höfðu ekki skilað tilætluðum árangri. Aðkomu almennings var einnig
ætlað að undirstrika að allt vald kæmi frá þjóðinni.
Í greinargerð með lögunum er áhugaverður kafli sem lýsir nánar
ástæðum þess að hugmyndir um stjórnlagaráð voru endurvaktar. Vísað
er til víðtækrar umræðu í þjóðfélaginu um nauðsyn endurskoðunar í
kjölfar bankahrunsins. Síðan segir: