Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Side 16
16 TMM 2012 · 1
Einar Már Guðmundsson
Minningargrein um Joe Allard
Ég segi við gestinn: „Ég ætla að leggja fyrir þig gátu.“
„Gátu?“ segir gesturinn.
„Já.“
„Allt í lagi. Hvernig er hún?“
„Hún er svona,“ segi ég. „Ég var staddur í öðru landi en fór samt ekki
úr landi. Hvar var ég?“
„Hvergi,“ segir gesturinn og hristir höfuðið.
„Það er ekki hægt,“ segi ég.
Þá fór hann að tala um tunglið og sálnaflakk og tímaflakk. Jafnvel
ruglun skilningarvitanna bar á góma. Hafa skáldin ekki alltaf dregið
veruleikann í efa? Ég er ekki ég, ég er annar, og allt það.
„Já, hvernig er hægt að vera í tveimur löndum í einu?“ segir gesturinn.
„Það er hægt að vera í Noregi, Finnlandi og Rússlandi, öllum í einu, en
Ísland er eyja!“
„Já, þetta er miklu einfaldara en þú heldur,“ segi ég. „Ég fór til
Keflavíkur, upp á Keflavíkurflugvöll, svæði sem er á Íslandi en tilheyrir
Ameríku.“
***
Eða var það öfugt? Það er ekki gott að segja. Hvenær tilheyra löndin
Ameríku og hvenær ekki? Hvar byrjar Ameríka og hvar endar hún?
Nú eru mörg ár síðan, svo mörg að þessi gáta er ekki lengur nein gáta.
Ameríka er farin. „Ameríka ég hef gefið þér allt en nú er ég ekkert.“
Þannig orti Allen Ginsberg og þannig hugsuðu margir í grennd við
hers töðina þegar Ameríka pakkaði saman og fór. Reiðir karlar létu í sér
heyra. Sorgmæddar konur mættu á svæðið. Bæjarstjórinn sagðist myndu
fara sjálfur til Boston og sækja fleiri hermenn. Allir vissu að hann var
bjart sýnni en ameríski draumurinn, en sá er víst frekar svefnlaus þessa
dagana.