Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Síða 17
M i n n i n g a r g r e i n u m J o e A l l a r d
TMM 2012 · 1 17
Þetta hafði gesturinn ekki hugsað út í. Herinn bara var hér. Þeir sem
voru á móti honum vildu ekki sjá hann. Þeir sem voru með honum vildu
heldur ekki sjá hann; og smám saman hættu flestir að velta honum
fyrir sér. Hluti af landinu var Ameríka. Hluti af okkur er Ameríka, en
Ameríka var lokuð, afgirt með gaddavír, vaktskýli og vörðum. Enginn
komst þangað nema með þartilgerð skilríki fyrir utan fuglinn fljúgandi;
og fuglar þurfa ekki skilríki.
***
Þetta er ekki vísindaskáldsaga sem gerist á öðrum hnöttum með sálna-
flakki og tímaflakki eða skrímslum úti í geimnum. Þetta er heldur ekki
glæpasaga þó að lögreglan komi við sögu, meira að segja herlögreglan og
hernaðaryfirvöld. Jeppar merktir MP – military police – óku um svæðið.
Hér er engin gáta, nema sú í upphafi, en glæpasögur líkjast gátum,
jafnvel krossgátum. Ekki nema að hernaðaryfirvöld séu glæpsamleg,
herlöggan eða löggan, þessi einmana íslenska lögga í vaktskýlinu sem
skildi ekki brandarana mína, eða þá að ég er glæpamaðurinn eða við
skáldin, ég og Bragi Ólafsson.
Ég er enn merktur þessari ferð, ekki alveg á sama hátt og Knut Hamsun
var merktur Ósló sem þá hét Kristjanía og enginn yfirgefur fyrr en hann
hefur látið á sjá, einsog segir í meistaraverkinu Sulti. Hvernig við erum
merkt herstöðinni, hvernig við erum merkt Ameríku, er önnur saga, á
sinn hátt alveg jafn sorgleg og sagan sem sögð er í Sulti. Ameríska her-
stöðin á Íslandi, The American Military Base Keflavík Iceland, var hins
vegar líkari dönsku Kristjaníu, hipparíkinu á Kristjánshöfn í Kaup-
mannahöfn, í þeim skilningi að vera ríki innan ríkisins. En þar endar
líka skyldleiki þessara tveggja ríkja.
Ef Fídel Kastró væri Íslendingur og kúbanska byltingin hefði verið
gerð á Íslandi þá hefði bandaríska herstöðin á Keflavíkurflugvelli getað
orðið einsog Guantanamo á Kúbu, einskonar amerískt fríríki sem breyta
mætti í fangelsi við þartilgerð skilyrði. Það er þó líklegra að við slíkar
aðstæður hefði herinn skakkað leikinn og steypt hinum íslenska Kastró
af stóli. Með því hefði hann aðeins verið að uppfylla eina af greinum
NATO-sáttmálans. Herinn átti að verja okkur fyrir Rússum en það urðu
aldrei nein átök við Rússa. Það kom heldur ekki til mála að nota herinn
í landhelgisdeilunni við Breta. Eina skiptið sem það var til umræðu að
nota herinn var í allsherjarverkfallinu árið 1955.
***