Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Blaðsíða 34
S n o r r i Pá l l J ó n s s o n Ú l f h i l d a r s o n
34 TMM 2012 · 1
Lundúnaaugans, sem eiga að höfða til þeirra sem hafa „ekkert að gera
og allan daginn til að gera það“24 – og óeirðirnar hafi því verið spenn-
andi atburður, dagar ólíkir öllum öðrum.25 Það passar við lýsingar
blaðamannsins Pauls Lewis, eins þeirra sem fjallað hefur hvað mest um
óeirðirnar, sem segir andrúmsloftið síst af öllu hafa verið óhugnanlegt,
heldur þvert á móti litað ánægjubrosum og spenningi.
Burt með mýsnar!
Frá fyrsta degi óeirðanna sögðust blaðamenn Guardian ætla að „lesa
óeirðirnar“ og eftir viku hafði lesturinn fært þeim þá niðurstöðu
að ungur aldur, fátækt og atvinnuleysi mynduðu hið sanna andlit
átakanna.26 Hið sama var uppi á teningnum nokkrum mánuðum síðar,
þegar kunngjörð var niðurstaða rannsóknar sem blaðið framkvæmdi
ásamt London School of Economics og byggir á viðtölum við 270 þátt-
takendur í óeirðunum. Samkvæmt rannsókninni liggja rætur upp-
þotanna annars vegar í djúpri andúð á lögreglunni, sem til er komin
vegna rótgróinna ofsókna lögreglunnar á hendur ungmennum af lægri
stéttum og innflytjendaættum – hins vegar í algjöru vonleysi og skorti
á tækifærum.27
Þó að niðurstaðan sé rökrétt og rannsóknin vegi upp á móti haturs-
áróðri yfirvalda – sem endurómaður er af bróðurparti fjölmiðla – getur
krafan um akademíska úttekt á óeirðum og ástæðum þeirra haft þá
hættu í för með sér að sjálft fólkið sem tók þátt sé jaðarsett og smættað
niður í viðföng. Ósjaldan hefur því verið haldið fram að „þetta fólk“ geti
ekki útskýrt sig sjálft, það geti ekki komið orðum að eigin hugmyndum
og sett þær fram. Þetta viðhorf kristallast hvergi betur en í umfjöllun
tímaritsins TIME á uppreisnum ársins sem leið. Þar er „mótmæland-
anum“ í sínu hnattrænasta veldi veittur titillinn „maður ársins“ en á
Lundúnaóeirðirnar er einungis minnst á þann veg að þó að þeir sem
tóku þátt hafi „eðlilega ekki hlotið mikla samúð“ hafi rannsóknin ofan-
greinda leitt í ljós að þeir hafi „líka verið mótmælendur“28.
Eitt hættumerkjanna kemur í ljós ef horft er rangsælis á ferilinn frá
óeirðunum til dagsins í dag og staðnæmst við leiðara Guardian meðan
á óeirðunum stóð. Þar segir að þó að ljóst sé að framkoma lögreglunnar
leiki stórt hlutverk í kveikju uppþotanna, myndi rannsókn aldrei leiða
til sömu niðurstöðu og Scarman-skýrslan sem gerð var eftir Brixton-
óeirðirnar þremur áratugum áður. Scarman nokkur lávarður fékk þá
það verkefni að rannsaka orsakir óeirðanna og komst að þeirri einföldu
niðurstöðu að ekki hefði verið lagt á ráðin um uppþotin heldur hafi þau