Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Síða 45
TMM 2012 · 1 45
Hallgrímur Helgason
Kona fer undir vatn
Guðrún frá Lundi. Nafnið hljómar eins og Forni Hvammur, ilmar eins
og taða, og bragðast eins og soðbrauð, eitthvað gamalt og gott, sem vekur
upp ljúfa væntumþykju, fortíðarþrá og kveikir bros.
Ég hef tekið eftir því: Alltaf þegar Guðrún frá Lundi er nefnd á
nafn fer fólk að brosa, að hlæja. Laxness lætur fólk kasta aftur höfði,
Þórbergur framkallar hneigingu, Steinn gerir menn steinhljóða, Guð-
bergur gerir fólki stút á munn og alltaf þegar Dagur er nefndur á nafn
fara menn umsvifalaust að gyrða sig (ekki spyrja mig hversvegna) en
þegar sú gamla frá Lundi dúkkar upp í samræðum fer fólkið að hlæja og
slakar á. Öllum þykir vænt um hana en enginn tekur hana alvarlega.
Dalalíf. Lengsta skáldsaga Íslands en léttvæg fundin. Hversvegna?
Ekki kennd í skólum. Ekki með í miðjunni. Ófáanleg í bókabúðum.
Hálfsársbið á bókasöfnum. Það þurfti heilt málþing til að maður færi
að lesa. Og það var ekki auðvelt. Því fyrst var að útvega sér eintök. Það
tók hálfan vetur að hafa upp á manni sem vildi selja. (Sjálfsagt hefði
verið auðveldara að redda sér tveimur kílóum af heróíni í Reykjavík en
fimm bindum af Dalalífi.) Röddin í símanum sagði: „Ég verð á hvítum
sendiferðabíl á bílastæðinu fyrir utan Snælandsvídeó klukkan fimm á
morgun. Kondu með cash.“
Og áhrifin voru svipuð og af dópi. Þegar maður var byrjaður var erfitt
að hætta. Og þó er bókin 2.189 blaðsíður að lengd. Kæmi sagan út í dag
yrði sagt í Kiljunni: „Jú jú, hún er ágæt. En það hefði mátt stytta hana
um svona 1500 blaðsíður.“ Dalalíf er í raun ekki bók heldur dalur fullur
af bæjum og fólki, veröld sem var, því þrátt fyrir allt trúir maður því að
svona hafi lífið á Íslandi verið á torfbæjaröldunum fyrir þá tuttugustu.
Það litla sem maður vissi um Dalalíf áður en lesturinn hófst var að
í þeirri bók væri „alltaf verið að drekka kaffi“. Flestar bækur fá sínar
klisjur, með réttu og með röngu, og það virðist nánast engin leið að
hrista þær af. Sjálfstætt fólk er „hetjusaga hins sjálfstæða Íslendings“