Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Qupperneq 75
L á r v i ð a r s k á l d
TMM 2012 · 1 75
Matthías tók undir þessi orð í klausu neðanmáls og lofaði að reyna að
koma á fót slíkum sjóði en ekki fer frekari sögum af honum. Það var því
enn fullkomið svigrúm til að minnast Jónasar í stórum stíl þegar leið að
aldarafmæli hans árið 1907.
Hugmyndin um gerð líkneskisins af Jónasi Hallgrímssyni var fyrst
viðruð í blaðagrein af Vilhjálmi Jónssyni árið 1897 og var þar lagt til
að Stúdentafélögin í Reykjavík og Kaupmannahöfn stæðu saman að
samskotum í tengslum við væntanlegt aldarafmæli skáldsins áratug
síðar.48 Söfnunin hófst fyrir alvöru 1899 en 1905, þegar Einar Jónsson
myndhöggvari fór að vinna að gerð styttunnar, vantaði enn fjórðung
upphæðarinnar sem rætt hafði verið um.49 Á næstu misserum var settur
aukinn kraftur í verkefnið og var meðal annars efnt til skemmtana víða
um land til að safna fé í minnisvarðasjóðinn.50 Halldór Jónsson, gjald-
keri söfnunarinnar, gerði grein fyrir árangri þessa starfs að leiðarlokum.
Þar sagðist hann hafa
vænst þess, eins og vafalaust flestir, að peningar mundu streyma inn til minnis-
varða yfir „óskabarn Íslands“, og þar sem ekki var gert ráð fyrir meiri fjárhæð
en um 6000 kr. — ekki einu sinni 10 a. á mann í landinu — mundi upphæð þessi
koma inn mjög bráðlega. En reynslan hefur nú orðið sú, að á umliðnum 10 árum
hafa enn ekki komið inn meira en um 5500 kr., svo að enn vantar um 500 kr. til
þess að auðið sje að segja, að þjóðin reisi þennan minnisvarða.51
Söfnunin fyrir líkneskinu af Jónasi varð samt mun árangursríkari en
söfnunin fyrir brjóstlíkneskinu af Bjarna.52 Munurinn lá að nokkru leyti
í lengri undirbúningstíma og metnaðarfyllri áformum Jónasaraðdáenda
en það hefur örugglega einnig skipt máli að Íslendingar stóðu í öðrum
sporum í efnahagslegu tilliti og jafnframt í sjálfstæðisbaráttu sinni en
tuttugu árum fyrr. Þá er líklegt að Jónas hafi, þegar þarna var komið
sögu, einfaldlega átt betri hljómgrunn meðal almennings en Bjarni, ekki
bara sem skáld heldur líka sem persóna.53 Hann hafði það með sér að
verka virkur þátttakandi í þjóðfrelsisbaráttunni og deyja í blóma lífs-
ins án þess að komast í tryggt embætti eða eignast stúlkuna sem hann
elskaði. Hann passaði að flestu leyti betur en Bjarni í hlutverk þjóð-
skáldsins, eins og það hafði verið skilgreint í Evrópu á undanförnum
áratugum.54 Afhjúpun styttunnar af honum við Lækjargötu í Reykjavík
16. nóvember 1907 varð í raun og veru þjóðernispólitískur viðburður
sem dró til sín múg og margmenni, þeirra á meðal félaga úr Stúdenta-
félaginu, Ungmennafélaginu og Skólapiltafélaginu. Þeir gengu fylktu liði
til og frá samkomunni og sungu lög við ljóð skáldsins. Í Lögréttu var
dagskránni lýst með þessum hætti: