Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Side 81
I n n i s k ó r
TMM 2012 · 1 81
Ég vissi að hann var aumur í síðunni eftir byltuna um daginn. En
hann var harður af sér.
„Ferðu ekki fyrst með mig í klippingu, vinur? Máttu vera að því?“
Þetta kom mér í opna skjöldu, hann hafði ekkert minnst á klippingu
þegar hann hringdi í mig.
„Já, þú meinar,“ sagði ég. „Það hlýtur að sleppa, ég hringi í vinnuna og
segi þeim að ég tefjist svolítið. Varstu búinn að panta tíma?“
„Nei, en það er aldrei löng bið hjá þeim. Þetta eru svo gamlir karlar að
þeir eru búnir að drepa af sér flesta kúnnana.“
Ég ók með hann sem leið lá á rakarastofuna niðri í miðbæ. Þessa
rakarastofu hafði hann alltaf notað og engin leið að breyta því. Ef hann
þurfti að láta gera við bílinn fór hann líka alltaf á sama verkstæðið, jafn-
vel þótt hægt væri að fá þjónustu miklu nær. Anna reyndi að breyta því
eftir að hann bakkaði á í seinna skiptið en þá fékk hann bara vin sinn til
að skutla bílnum á rétta verkstæðið.
Ég steig út fyrir til að fá mér smók meðan hann var í stólnum og
notaði tækifærið til að hringja í Önnu.
„Hann vildi fara í klippingu líka, var hann búinn að nefna það við
þig?“ sagði ég og reyndi að halda aftur af mér.
„Nei, ekki einu orði. En hann er snyrtimenni eins og þú veist.“
„Ég má varla vera að þessu.“
„Þetta tekur nú ekki langan tíma. Og það er ekki oft sem hann biður
þig um eitthvað.“
„Það er bara þessi tilætlunarsemi. Biður mig um eitt en bætir svo öðru
eins við … En hann hefur nú aldrei þolað mig …“
„Hvaða vitleysa. Þú hefur bara aldrei gefið honum séns. Kannski er
þetta það síðasta sem þú gerir fyrir hann –“
Tengdapabbi var að reyna að spauga við rakarann þegar ég kom inn.
Ég heyrði hann hlæja sínum gamalkunna hlátri sem var næstum jafn
kraftmikill og vanalega, mér til nokkurrar furðu.
Að klippingu lokinni studdi ég hann út í bíl. Ég var dauðhræddur
um að missa hann í götuna þegar við komum út því hann misreiknaði
þrepið. En það bjargaðist og með sameiginlegu átaki tókst að koma
honum upp í bílinn aftur.
„Heldurðu að þú komir ekki við á Klapparstígnum, ég þarf að kaupa
mér sjampó.“
„Fékkst það ekki hérna?“
„Nei, þeir eru ekki með nein almennileg sjampó hérna, karlarnir.
Þetta er í leiðinni. Leiðinlegt að tefja þig svona.“