Tímarit Máls og menningar - 01.09.2012, Síða 19
H v e r j u r e i d d u s t g o ð i n ?
TMM 2012 · 2 19
galdra nota ýmis hugtök (á borð við magic, witchcraft, sorcery og shamanism)
og það ekki af tilviljun einni saman, eins og ég tel nú rétt að víkja nánar að.
*
Ég hef hér að framan nokkrum sinnum notað orðið „yfirnáttúra“ en með
talsverðri tregðu því að þegar það hugtak er notað er óhjákvæmilegt að taka
sér stöðu í náttúrunni og horfa upp yfir hana eða handan hennar og það
kallar á skýra hugmynd um náttúru og hvað sé eðlilegur hluti hennar en
hvað ekki; orðið hefur verið gagnrýnt af þeim sem hafa viljað nálgast hugar
far þess sem trúir á yfirnáttúruleg fyrirbæri; enski fræðimaðurinn C.S.
Lewis benti þannig á sínum tíma á það að fyrir þann sem tryði á álfa og tröll
(eða einhyrninga og dreka) væru þessi fyrirbæri ekki yfirnáttúruleg heldur
jafn mikill hluti af náttúrunni og aðrar lífverur, kettir og hundar þess vegna,
rétt eins ókapi er hluti af okkar fánu (en það undradýr þekktu Evrópumenn
ekki fyrr en á 20. öld, þannig að ókapinn var sannarlega goðsögn áður en
hann reyndist vera til). En það er erfitt að finna góð orð. „Yfirskilvitlegur“
er skárra orð þar sem þá er numið staðar í skynfærum mannsins og þar með
reynslu hans. „Dulrænn“ kann að hljóma kjánalega eftir nokkra áratugi af
skyggnilýsingum en nær þó enn betur utan um það eðli slíkra fyrirbæra að
allsendis er óvíst að þau beri að skýra; þegar þetta orð er notað er öruggri
þekkingu ekki lofað.
Allar miðaldaheimildir virðast á einu máli um að drjúgur hluti dulrænna
fyrirbæra eigi sér rót í göldrum og kukli, raunar svo drjúgur að erfitt er að
benda á neitt yfirnáttúrulegt sem a.m.k. sumir miðaldamenn töldu ekki eiga
sér rót í göldrum. Þannig er engin leið að skilja að galdrasögu og draugasögu
þegar komið er fram á miðaldir. Þegar kemur að helstu samskiptum og
samskiptaleiðum við hið yfirnáttúrulega, yfirskilvitlega og dulræna er ekki
minni vandi á höndum að velja hugtökin þar sem þau hneigjast öll til að vera
neikvæð og fræðimenn vilja helst ekki vera neikvæðir, (það er fremur í þeirra
náttúru og uppeldi að leita hlutleysis). Það á sannarlega við um öll alþjóða
orðin um fyrirbærið sem ég nefndi rétt áðan en hér á eftir verður sjónum í
staðinn einkum beint að hinum norræna orðaforða.
Þegar rætt er um þá sem koma böndum á hið yfirskilvitlega eru helstu
fornnorrænu hugtökin fjölkynngi, forneskja, galdrar og trollskapur sem öll
hafa áhugaverða merkingarauka. Hér áður var vikið að Eyrbyggja sögu
og þar eru engin dæmi um fjölkynngi (hins vegar sést orðið margkunnig)
og dæmin um galdra eru varasöm (annars vegar auknefnið galdrakinn en
hins vegar hluti af kenningu, vopna galdr). Á hinn bóginn koma hin tvö
orðin fyrir í áhugaverðu samhengi í þessari allsérstæðu Íslendingasögu sem
varpar nokkru ljósi á það hvernig hægt er að vinna með hugtökin. Það vekur
athygli að bæði hugtökin tvö (forneskja og trollskapur) koma fyrir í tengslum