Þjóðarbúskapurinn - 01.08.1983, Blaðsíða 23
21
Verðlagsráði sjávarútvegsins (þar af koma þó 4% til skipta hjá bátaflotanum).
Þá var 7% olíugjald til útgerðar utan skipta einnig afnumið.
Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst, að afkoma útgerðar hefur verið
léleg á undanförnum árum. Að hluta til má rekja rekstrarvanda útgerðar um
þessar mundir beinlínis til minni afla og má þar nefna til dæmis hrun
loðnuveiðanna og stórfellda minnkun þorskafla. Þetta ástand kann að vera
tímabundið, að minnsta kosti hvað loðnuveiðar áhrærir, þar sem þess er vænst,
að þær hefjist að nýju jafnvel síðar á þessu ári, þótt það verði í minna mæli en
þegar best lét. Ennfremur virðast allgóðar horfur um afla annarra tegunda en
þorsks og loðnu næstu ár. Á hinn bóginn er rétt að benda á, að einn þáttur — og
án efa vaxandi þáttur — í rekstrarvanda útgerðar á undanförnum árum er
fólginn í því, að fiskiskipastóllinn hefur stækkað meira en numið hefur
afrakstursgetu fiskstofnanna. Eins og nú horfir virðist einsýnt, að hér sé um
varanlegt vandamál að ræða. Við þessum vanda verður ekki snúist að gagni
nema með víðtækari aðgerðum en hingað til hefur verið beitt.
Hagur botnfiskvinnslunnar í heild hefur að líkindum orðið nokkru lakari árið
1982 en árið 1981, ef til vill sem svarar 2-2,5% af tekjum. Mjög skiptir þó í tvö
horn eftir vinnslugreinum, að því er varðar breytingar á afkomu þessara greina
frá fyrra ári og á það einkum við um frystingu og söltun. Þannig benda áætlanir
til þess, að hagur frystingar hafi orðið mun betri árið 1982 en undanfarin ár,
þrátt fyrir nokkra verðlækkun afurða í dollurum. Skýringanna er einkum að leita
í meiri hækkun á verði erlends gjaldeyris en sem nam kostnaðarhækkunum
innanlands. Þannig hækkaði verð á dollar í íslenskum krónum talið um tæp 73%
frá ársmeðaltali 1981 til 1982, en almennt fiskverð mun minna, eða nálægt 54%
og launakostnaður jókst um 49%.
Árið 1982 versnaði hagur söltunar, en mikill uppgangur hafði verið í þessari
grein næstu tvö árin þar á undan. Versnandi afkomu árið 1982 má rekja til
lækkandi markaðsverðs á saltfiski í dollurum í helstu markaðslöndum okkar í
Suður-Evrópu.
Þær vísbendingar, sem fyrir liggja um afkomu fiskvinnslunnar árið 1983,
benda ótvírætt til þess, að munur á afkomu frystingar og söltunar hafi enn ágerst
á árinu. Líklegt má telja, að um þessar mundir sé rekstrarstaða frystingar betri
en verið hefur um langt skeið. Aftur á móti er staða söltunar með lakasta móti
og veldur þar allt í senn; lækkandi afurðaverð, samdráttur í framleiðslu og
vandræði vegna selorma í hráefninu. Nú er talið, að ef ekki nyti greiðslna úr
Verðjöfnunarsjóði næmi tap á saltfiskverkun 8-10% af tekjum. Sem fyrr segir
stafar þessi hallarekstur að miklu leyti af verulegu verðfalli á saltfiskmörkuðum
að undanförnu. Þannig er áætlað, að meðalverð (fob) í dollurum fyrir tonn af
óverkuðum saltfiski hafi lækkað um 18% á árinu 1982 frá meðaltali 1981, en það
ár var verðið í hámarki. Nú er hins vegar talið, að verðið á þessu ári muni enn
lækka um 10%. Saltfiskverð er því orðið um fjórðungi lægra í dollurum en á
árinu 1981, en dollarverð á freðfiski er hins vegar svipað nú og það var árið