Þjóðarbúskapurinn - 01.08.1983, Blaðsíða 47
Þjóðarútgjöld
Einkaneysla.
Tölur um einkaneysluútgjöld árið 1982 eru enn sem komið er að nokkru
byggðar á áætlunum. í þjóðhagsspá fyrir árið 1982, sem sett var fram í apríl, var
gert ráð fyrir, að einkaneysla á mann 1982 yrði óbreytt miðað við árið 1981 og
heildaraukning yrði um 1% í samræmi við áætlaða fólksfjölgun. Yfirleitt ræðst
einkaneysla hvert ár að mestu af þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna á sama ári,
en síðari ár hefur reynst erfitt að spá um hann vegna mikillar verðbólgu og
óvissu um kjaramál.
Vísbendingar um framvinduna árið 1982 sýna að einkaneysla breyttist mjög
skrykkjótt. Veruleg þensla virðist hafa átt sér stað á fyrstu þremur mánuðum
ársins samanborið við árið áður. Um það vitnar verslunarvelta svo og
innflutningur neysluvöru. Á þriðja og þó einkum fjórða ársfjórðungi komu
samdráttareinkenni í ljós. Kaupmáttur kauptaxta fór lækkandi síðari hluta
ársins, gengið lækkaði verulega, sjávarafli minnkaði til muna og loks dró
nokkuð úr atvinnu.
Áætlað er, að ráðstöfunartekjur heimilanna hafi í heild aukist um 57,5% árið
1982. Verðlag einkaneyslu er talið hafa verið 54% hærra að meðaltali en 1981
samanborið við 51% meðalhækkun framfærsluvísitölunnar. Þessi munur stafar
af verðhækkun innfluttrar vöru umfram innlenda vegna lækkunar á raungengi
krónunnar svo og af því, að landbúnaðarvara hækkaði minna í verði en önnur
neysluvara vegna aukinna niðurgreiðslna fyrri hluta ársins. Kaupmáttur ráðstöf-
unartekna heimilanna, miðað við verðlag einkaneyslu, jókst því um rúmlega 2%
í heild eða sem svarar um 1% á mann. Áætlanir um útgjöld til einkaneyslu 1982
benda ennfremur til um 2% heildaraukningar.
Árið 1982 virðist neysla hafa beinst í ríkari mæli en áður að innlendum vörum.
Sem fyrr segir hækkaði verð innlendrar vöru nokkru minna en erlendrar. Neysla
landbúnaðarafurða jókst um nálægt 5% að því talið er, enda hækkaði verð
landbúnaðarafurða nokkru minna en annarrar neysluvöru. Jafnframt er sala
annarrar innlendrar neysluvöru talin hafa aukist nokkuð. Sala áfengis og tóbaks
jókst óverulega eða um 0,4% en um 5% árið 1981. Alls var flutt inn 8851
fólksbifreið á árinu, svipað og árið áður. Bifreiðainnflutningur síðari hluta ársins
var hins vegar um helmingi minni en fyrri hlutann. Sala á bílabensíni nam 127
milljónum lítra samanborið við 122 milljónir lítra 1981 og er aukningin því um
4%. Sala gasolíu til húshitunar hefur minnkað ár frá ári. Salan nam um 41
milljón lítra 1982 og hafði þá dregist saman um 30% frá árinu áður.
Innflutningur annarrar neysluvöru er talinn hafa aukist um 3,5%. Upplýsingar