Þjóðarbúskapurinn - 01.08.1983, Blaðsíða 80
Peninga- og lánamarkaður
Peningamál.
Fyrri hluta árs 1981 virtist um sinn stefna að jafnvægi í peningamálum. Reyndin
varð þó önnur. í kjölfar efnahagsráðstafana í upphafi þess árs og hagstæðra ytri
skilyrða dró nokkuð úr verðbólgu og raunvextir hækkuðu. Peningamyndun varð
mjög mikil, einkum vegna mikils innstreymis erlendra lána, og hafði í för með
sér, að innlán í innlánsstofnunum jukust mikið. Lausafjárstaða innlánsstofnana
var ennfremur óvenju góð í ársbyrjun 1981 og hélst svo fyrstu mánuði þess árs.
Þegar leið fram á sumarið, var ljóst orðið, að aðhaldsstefnan í gengismálum
hafði veikt stöðu atvinnuveganna og gengislækkunar var sterklega vænst.
Spákaupmennskan, sem af þessu hlaust, var fjármögnuð með hinni miklu
peningamyndun á fyrri hluta ársins. Að auki stórjukust útlán, sérstaklega til
einstaklinga. Lausafjárstaða innlánsstofnana versnaði af þessum sökum, ekki
síst þar sem samtímis dró mjög úr aukningu innlána. Gjaldeyrisstaðan hlaut að
versna verulega, en því var að nokkru mætt með lækkun gengisins. Gjaldeyris-
staðan var þó með allra besta móti í árslok 1981, þrátt fyrir rýrnun síðari hluta
þess árs.
Hin óhagstæða þróun peningamála, sem hófst síðari hluta 1981, ágerðist enn
árið 1982. Við bættust erfiðleikar í útflutningsframleiðslunni og gjaldeyrisstaðan
fór hríðversnandi og var í lok ársins aðeins helmingur þess sem hún var við
upphaf þess. Rýrnunin á árinu 1982 reiknuð á gengi í árslok nam 1 686
milljónum króna.
Versnandi gjaldeyrisstaða fyrstu mánuði ársins 1982 átti rætur að rekja til
stóraukinnar gjaldeyrissölu. Fyrstu þrjá mánuðina var salan um 15% meiri á
föstu gengi en á sama tíma árið áður, en gjaldeyriskaup voru 4% minni. Með
sumrinu jókst salan enn og var allt að þriðjungi meiri en á sama tíma árið áður,
ef til vill vegna spákaupmennsku. Samtímis dró mjög úr gjaldeyris-
kaupum sökum minnkandi útflutnings. Undir lok ársins dró verulega úr
gjaldeyrissölunni og árið allt var salan 5% meiri en árið áður, en jafnframt
minnkuðu gjaldeyriskaup um 7%. Mikið var tekið að láni á árinu og hlaut það
að laga gjaldeyrisstöðuna nokkuð.
Hin versnandi gjaldeyrisstaða, sem að ofan hefur verið lýst, dró mjög úr
peningamyndun árið 1982. Svo sem meðfylgjandi tafla sýnir var vöxtur allra
peningamagnsstærða mun minni en árið á undan. Engu að síður jukust útlán
innlánsstofnana mun meira.
Minnkandi peningamyndun ásamt lægri raunvöxtum virðast vera meginskýr-
ingar þess, að mjög dró úr aukningu innlána frá því er verið hafði árið á undan.