Gripla - 2019, Qupperneq 56
GRIPLA56
segir skilning á Eiríks sǫga víðfǫrla yfir handritageymdina hafinn; sennilegra
virðist, að sagan hafi verið sett í efnislega sundurleitt textasamhengi, sökum
þess að margvíslegar túlkanir á sögunni hafi þegar verið á kreiki, fremur en
túlkun sögunnar verði reist á umhverfinu í handritunum.27
Nokkrir fræðimenn hafa raunar veitt því eftirtekt, að Eiríks saga víðfǫrla
stendur fremst í Flateyjarbók,28 nánar tiltekið er hún fremst af því efni,
sem Jón Þórðarson, skrifari og ritstjóri fyrri hluta bókarinnar, færði í letur.
Þar fyrir framan hefur Magnús Þórhallsson, skrifari og ritstjóri síðari hlut-
ans, þó aukið við eftir á þremur blöðum, og þar á – svo og á upphaflega
fremstu blaðsíðuna, sem Jón hafði skilið eftir auða – hefur Magnús skrifað
formála og tíu dálka meðal annars með kvæðum, ættartölum og konungatali
í Noregi; forsíða fyrsta blaðsins af blöðunum þremur, sem Magnús jók
framan við handritið, er auð, en á baksíðu þess stendur einungis formál-
inn á síðunni miðri. Reyndar er ekki að undra, þótt þessari efnisskipan í
Flateyjarbók hafi verið veitt eftirtekt, því að Jón Þórðarson skrifari/rit-
stjóri hefur bætt stuttum eftirmála við Eiríks sǫgu víðfǫrla, þar sem hann
gerir einmitt grein fyrir því, hvers vegna hann setti „þetta ævintýr fyrst í
þessa bók“. Eftirmálinn hljóðar svo:
En því setti sá þetta ævintýr fyrst í þessa bók, er hana skrifaði, at
hann vill, at hverr maðr viti þat, at ekki er traust trútt nema af Guði,
því at þó at heiðnir menn fái frægð mikla af sínum afreksverkum, þá
er þat mikill munr, þá er þeir enda þetta hit stundliga líf, at þeir hafa
þá tekit sitt verðkaup af orðlofi manna fyrir sinn frama, en eigu þá
ván hegningar fyrir sín brot ok trúleysi, er þeir kunnu eigi skapara
sinn. En hinir, sem Guði hafa unnat ok þar allt traust haft ok barizk
fyrir frelsi heilagrar kristni, hafa þó af hinum vitrustum mǫnnum
fengit meira lof, en þat at auk, at mest er, at þá er þeir hafa fram
gengit um almenniligar dyrr dauðans, sem ekki hold má forðask,
hafa þeir tekit sitt verðkaup, þat er at skilja eilíft ríki með allsvald-
anda Guði utan enda sem þessi Eiríkr, sem nú var frá sagt.29
27 Christian Carlsen, Visions of the Afterlife in Old Norse Literature, 52–53.
28 Sbr. Sverrir Jakobsson, „Austurvegsþjóðir og íslensk heimsmynd. Uppgjör við sagnfræðilega
goðsögn“, Skírnir 179 (vor 2005): 94.
29 Flateyjarbok. En Samling af norske Konge-Sagaer med indskudte mindre Fortællinger om
Begivenheder i og udenfor Norge samt Annaler I, [útg. Guðbrandur Vigfússon og C. R. Unger]
(Kristjaníu: P. T. Mallings Forlagsboghandel, 1860), 35–36, stafsetn. samræmd hér.