Gripla - 2019, Blaðsíða 264
GRIPLA264
Félagsleg ádeila
í Aldasöng kemur fram almenn félagsleg ádeila auk gagnrýni á kristnihaldið.
Hana er t.d. að finna í 11. erindi sem vikið var að hér framar en þar beinist
gagnrýnin að þeim ójöfnuði er Bjarni taldi æskufólk búa við og olli meðal
annars mismunandi aðstöðu til náms og menntunar. Veraldleg ádeila kemur
líka fram í 3.–5. erindi þar sem félagslegt misrétti og gjálífi forréttinda-
stéttarinnar er gagnrýnt. Beint samband er oft milli félagslegrar ádeilu
skálda og annarra samfélagsrýna og greiningar þeirra á samtímaaðstæðum.
Slík tengsl má greina í Aldasöng en þar lýsir Bjarni aðstæðum í samtíma
sínum einkum í erindum 6 og 7.77
Á fyrri hluta 17. aldar eða um það leyti sem Aldasöngur var kveðinn var
skammt milli eldgosa, hafísára, snjóavetra og grasbrests þótt einnig brigði
stundum til hins betra með gjöfulum vertíðum og góðum heyskapar-
sumrum. Almennt má þó líta svo á að þetta tímabil hafi verið þjóðinni erf-
itt, kjör hennar hafi versnað og að mannfækkun hafi átt sér stað.78 Kemur
þetta glöggt fram í þeim heitum sem mörgum vetrum á þessu skeiði voru
valin m.a. í annálum: Lurkur (1600–1601), Píningsvetur (1602), Eymdarár
(1604), Svellavetur (1625), Frostaharðindisvetur (1627), Jökulvetur (1630),
Hvítivetur (1633–1634), Bauluhaust (1639) og Glerungsvetur (1648).79 Vera
má að hin „bleika“ sól sem Bjarni minnist á í 6. erindi hafi verið algeng
sjón um það leyti sem hann orti Aldasöng og að litur hennar hafi stafað af
gosmóðu og ösku í andrúmslofti eða hugsanlega frostþokum.
Hallæri með skepnudauða og jafnvel mannfelli hafði margháttuð félags-
leg áhrif fyrr á tíð. Hannes Finnsson (1739–1796) Skálholtsbiskup sem
fyrstur manna ritaði um lýðfræði hér á landi segir í inngangi að riti sínu
um mannfækkun af hallærum að drepsótt, stríð og dýrtíð séu álitnir „[…]
þeir snörpustu vendir í Guðs hendi […]“.80 Hann áleit að fyrr á tíð hafi
stríð verið skaðvænlegri en drepsóttir en að það hafi snúist við með bættu
siðferði í styrjöldum. En hann áleit að meðal siðaðra þjóða hafi skapast sú
venja að þyrma konum og börnum. Drepsóttir gangi á hinn bóginn jafnt
77 Sjá og 22. erindi. Þar kemur fram að slæmt árferði hefur verið og skortur gert vart við sig
um það leyti er kvæðið var ort. Erindið er þó hluti af sérefni B-handrita.
78 Helgi Þorláksson, Saga Íslands VI, 265–294.
79 Hannes Finnsson, Mannfækkun af hallærum, Jón Eyþórsson og Jóhannes Nordal sáu um
útgáfuna, (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1970), 47–60.
80 Sama rit, 1.