Gripla - 2019, Blaðsíða 255
255
Er Aldasöngur veraldlegt kvæði?
Eins og fram er komið hafa skoðanir verið skiptar um hvort flokka beri
Aldasöng sem veraldlegt eða trúarlegt kvæði þótt flestir hafi hallast að hinu
fyrrnefnda.49 Verður hér vikið sérstaklega að því atriði.
í flokkun sinni á bókmenntum barokktímans eða lærdómsaldarinnar
(1550–1750) skiptir Böðvar Guðmundsson kveðskapnum þannig að aðeins
sálmar teljast til trúarlegra bókmennta.50 Veldur það líklega miklu um hve
óhikað hann skipar Aldasöng í veraldlega flokkinn. En þrátt fyrir yfirskrift
kvæðisins í handritum (sjá aftar) verður það trauðla flokkað með sálmum
í venjulegum lútherskum skilningi. Flokkun á borð við þessa tvískiptingu
virðist líka gróf og formleg og sýnist nærtækara að taka ríkara tillit til inn-
taks einstakra verka og efnistaka skáldanna þegar þeim skal skipað í ver-
aldlegan eða trúarlegan flokk.
Þá má vera að fyrrgreint mat á Aldasöng ráðist af flokkun kvæðisins
meðal heimsádeilukvæða. Sú kveðskapargrein kom fyrst fram á íslandi
á seinni hluta 15. aldar og í slíkum kvæðum var deilt hart á spillingu og
félagslegt ranglæti.51 Oftast er litið svo á að þar sé um veraldlegan kveðskap
að ræða og er slíkum kvæðum frá lærdómsöld gjarna skipt í rímur, ævi- og
ellikvæði og heimslystarkvæði auk heimsósómanna.52 Hér skal varað við
því að sú staðreynd að Aldasöngur er vissulega heimsósómakvæði sé látin
valda því að kvæðið sé flokkað og túlkað sem veraldlegur kveðskapur. í því
sambandi ber að gæta þess að ádeila – jafnvel félagsleg gagnrýni – getur
hvort heldur sem er verið sett fram á veraldlegan eða trúarlegan máta.
Hér skal því enda haldið fram að einnig í þessu efni verði að taka tillit
til efnistakanna og láta þau frekar en yrkisefnið skera úr um hvort um
veraldlegar eða trúarlegar bókmenntir sé að ræða hverju sinni. Torvelt er
líka að beita slíkri tvískiptingu á mörg kvæða Bjarna Borgfirðingaskálds
og er Aldasöngur skólabókardæmi um það. Raunar orkar skipting menn-
49 í sumum útgáfum hefur hin veraldlega hlið kvæðisins verið dregin fram með því að sleppa
sumum þeirra erinda sem eru trúarlegs eðlis, sjá nmgr. 4.
50 Böðvar Guðmundsson, „Nýir siðir og nýir lærdómar“, 408–455.
51 Böðvar Guðmundsson, „Nýir siðir og nýir lærdómar“, 437, 452. „Aldasöngur, Einn fagur
sálmur um mismun þessarar aldar og hinnar fyrri. Skýringar“, bragi.arnastofnun.info,
sótt 7. desember 2018 af http://bragi.arnastofnun.is/ljod.php?ID=1313. Hugtök og heiti í
bókmenntafræði, Jakob Benediktsson ritstýrði (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla
íslands, Mál og menning, 1989), 114.
52 Böðvar Guðmundsson, „Nýir siðir og nýir lærdómar“, 436–442.
„ aLLt HafÐ I annan rÓ M […]“