Milli mála - 2018, Side 17
ERLA ERLENDSDÓTTIR
Milli mála 10/2018 17
tilfellum hefur spænska miðlað orðunum til viðtökumálanna, eins
og áður sagði, en í mörgum tilvikum hafa þau haft viðkomu í fleiri
Evrópumálum áður en þau bárust norður á bóginn. Það hefur leitt
til þess að aðkomuorðin fengu jafnvel franskt, þýskt eða enskt yfir-
bragð áður en þau voru tekin upp í norrænar tungur.
2.1 Avókadó
Avókadó, perulaga aldin lárperutrésins (lat. Persea americana), hefur
einnig verið kallað lárpera eða grænaldin á íslensku.12 Lárperutréð,
sem er upprunnið í Mið- og Suður-Ameríku, og ávöxtur þess
bárust til Gamla heimsins með spænskum landkönnuðum og land-
vinningamönnum þegar á 16. öld. Í dag er aldin plöntunnar þekkt
fæða og á borðum manna víða um heim.
Orðið ahuacatl er úr nahuatl,13 tungumáli frumbyggja í Mexíkó,
og merkir ,avókadó‘. Ekki er úr vegi að geta þess að í fleirtölu er
orðið notað í merkingunni ,eistu‘ meðal nahuatl-mælandi og má
gera því skóna að um myndlíkingu sé að ræða, hins vegar er ekki
ljóst hvort þetta er upprunaleg merking orðsins eða síðari tíma
merkingarvíkkun.14 Elsta ritdæmi með orðinu er að finna í Historia
de los indios de la Nueva España (Saga indíána á Nýja Spáni) eftir
Toribio de Benavente, öðru nafni Motolinía. Hann var trúboði af
fransiskanareglunni og síðar sagnaritari í Nýja heiminum.15 Hann
er talinn hafa ritað verk sitt í Mexíkó á árunum 1536–1541.16 Í
9. kafla skrifar Motolinía: „Meðal aldina sem er að finna í þessum
fjallahéruðum, og reyndar í öllu landinu, er eitt sem kallast aua-
12 ÍAO = Íslenska alfræðiorðabókin, Reykjavík: Örn og Örlygur, 1990, bls. 359. MÍM, s. v. avókadó.
Einungis avókadó og lárpera koma fyrir í Íslenskri orðabók. ÍO = Íslensk orðabók, ritstj. Mörður
Árnason, Reykjavík: Edda, bls. 59, 875. ÍB = Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum,
Íðorðabanki Árnastofnunar http://www.ordabanki.hi.is/wordbank/search [sótt 15. desember 2018],
s. v. avókadó.
13 DN, bls. 22.
14 Sama rit. Marcos A. Morínigo, Diccionario del español de América, Madrid: Anaya & Mario Muchnik,
1996, bls. 19–20.
15 Fray Toribio de Benavente «Motolinía», Historia de los indios de la Nueva España, ritstj. Mercedes
Serna Arnaiz og Bernat Castany Prado, Madrid: Real Academia Española – Centro para la Edición
de los Clásicos Españoles, 2014, bls. 10, http://www.rae.es/publicaciones/obras-academicas/bcrae/
historia-de-los-indios-de-la-nueva-espana-de-fray-toribio-de [sótt 15. desember 2018].
16 CORDE = Real Academia Española: Banco de datos (CORDE) [en línea]. Corpus diacrónico del
español. http://www.rae.es [sótt 15. desember 2018].