Milli mála - 2018, Side 31
ERLA ERLENDSDÓTTIR
Milli mála 10/2018 31
Þrátt fyrir að eiga að baki langt ferðalag hefur taínska orðið maís
lítið sem ekkert breyst að formi til í viðtökumálunum (spænska maíz,
ítalska màis, franska maïs, þýska Mais, danska majs, sænska majs,
norska mais, íslenska maís) og merkingin er í öllum tilfellum sú sama
og upprunaleg merking orðsins í upprunamálinu. Það er viðbúið að
framburður orðsins í hinum ýmsu viðtökumálum sé frábrugðinn
upprunalegum framburði taíno-orðsins sem samkvæmt spænskum
og spænsk-amerískum fræðimönnum gæti hafa verið /mahiz/ ef litið
er til fyrsta ritdæmis orðsins í skrifum Kólumbusar og Las Casas.
Hér er hins vegar um vangaveltur að ræða. Eins og áður var vikið að
er hvort tveggja, ritháttur og hljóðfræðileg gerð orðanna, í raun og
veru spænskt og þau voru, að segja má, í spænskum búningi þegar
þau bárust inn í önnur tungumál og þannig voru þau allt þar til þau
féllu að málkerfi og ritvenjum viðtökumálanna.
Elstu rituðu heimildir orðsins mahiz í spænsku eru frá lokum 15.
aldar.117 Á fyrri hluta 16. aldar barst orðið úr spænsku yfir í ítölsku,
frönsku, þýsku og ensku. Elstu ritdæmi um það koma alla jafna
fyrir í bréfum, ferðasögum eða kronikum, textum sem voru upphaf-
lega þýddir úr spænsku eða latínu. Ef litið er til Norðurlandanna þá
kemur orðið fyrir í dönskum, sænskum og íslenskum textum frá 17.
öld. Í dönsku kemur orðið fyrst fyrir í bókinni Historia Geografica
Orientalis eftir Hansen Skonning en hann mun hafa stuðst við þýskar
heimildir við ritun hennar. Og í íslenskri þýðingu þessa verks, sem
er í handriti í Konunglegu bókhlöðunni í Kaupmannahöfn, er elsta
dæmi um orðið í íslenskum texta. Elsta ritdæmið um orðið í sænsku
fyrirfinnst í bréfum og skrifum kansellíráðsins Axels Oxenstierna.118
Ekki er ólíklegt að orðið hafi borist í sænskt mál í gegnum þýsku.119
Þá var orðið tekið upp í norsku upp úr miðri 18. öld. Má gera því
skóna að orðið hafi borist úr dönsku í íslensku og einnig í norsku,
en hafa ber í huga að Ísland og Noregur voru nýlendur Dana í þá tíð
og tengsl landanna eðlilega mikil af þeim sökum.
Orðin sem hér voru til umfjöllunar bárust, eins og títt er um
flökkuorð, land úr landi og úr einu tungumáli í annað. Ferðalag
orðanna hófst í samfélögum frumbyggja spænsku Ameríku á 15.
117 CORDE.
118 SAOB, s. v. advokatpäron.
119 Sama rit.