Milli mála - 2018, Page 66
TARTUFFE Í SÖGU OG SAMTÍÐ
66 Milli mála 10/2018
um tvöfeldni, enda gæti misræmis hjá honum milli orðs og æðis.
Gjá myndast í fjölskyldunni milli þeirra sem vilja halda uppteknum
hætti og lifa borgaralegu líferni og hinna sem vilja taka upp strang-
kristilega siði eins og Tartuffe mælir fyrir um. Blinda Orgons kemur
ljóslega fram í frægu atriði þar sem hann innir þernuna frétta af
Tartuffe og andvarpar hrærður: „Aumingja karlinn“, þegar hún segir
hann taka vel til matar síns en sýnir fréttum af bágu heilsufari eigin-
konu sinnar engan áhuga.
Í öðrum þætti kemur fram að Orgon hefur hug á að gefa
Tartuffe hönd dóttur sinnar. Misklíð kemur upp á milli elskendanna
Maríönnu og Valère en Dorine sættir þau.
Tartuffe birtist ekki fyrr en í þriðja þætti og er ekki fyrr stiginn
á svið en hann biður þernuna að hylja barm sinn þar sem bert holdið
gæti valdið syndsamlegum hugsunum. Í einu lykilatriði verksins
játar Tartuffe ást sína á húsmóðurinni Elmíru. Stjúpsonur Elmíru,
Damis, verður vitni að þessu og gerir föður sínum viðvart. Tartuffe
játar sök en Orgon bregst við með því að reka son sinn að heiman og
afræður að gera hann arflausan og ánafna Tartuffe allar eigur sínar. Í
ofanálag gefur hann Tartuffe fullt leyfi til að umgangast eiginkonu
sína auk þess sem hann hefur þegar lofað honum hönd dóttur sinnar.
Það sem fyrir honum vakir er að kveða alla öfund í kútinn.
Í fjórða þætti tekur Elmíra til sinna ráða og fær eiginmann sinn
til að fela sig undir borði þannig að hann sjái með eigin augum
ósæmilega háttsemi Tartuffes í hennar garð. Þá opnast loks augu
Orgons og hann rekur Tartuffe af heimili sínu en þá er það of seint:
Tartuffe er eigandi hússins og hefur auk þess undir höndum skjöl
sem geta reynst fjölskyldu Orgons þung í skauti.
Í fimmta þætti sendir Tartuffe sýslufulltrúa til að tilkynna Orgon
að hann hafi einn dag til að flytja með fjölskyldu sína úr húsinu.
Valère, unnusti Maríönnu, færir þær fréttir að Tartuffe hafi fengið
yfirvöldum í hendur skjölin sem sanna að vinur Orgons hafi gerst
brotlegur við konungsvaldið. Þetta gæti orðið Orgon dýrkeypt og
því býðst Valère til að hjálpa honum að flýja og leita skjóls. Þá
birtist Tartuffe með útsendara konungs en í stað þess að handtaka
Orgon fyrir að hafa hylmt yfir samsæri gegn krúnunni, tekur hann
Tartuffe til fanga fyrir svik, ógildir afsalið og náðar Orgon fyrir til-
stilli konungs. Maríanna er lofuð Valère og allt fellur í ljúfa löð.