Milli mála - 2018, Blaðsíða 83
GUÐRÚN KRISTINSDÓTTIR-URFALINO
Milli mála 10/2018 83
Þá var leikritið sett upp hjá Leikfélagi Reykjavíkur í
Borgarleikhúsinu árið 1993 í leikstjórn Þórs Tulinius og í íslenskri
prósaþýðingu Péturs Gunnarssonar á enskri leikgerð verksins. Þar
fór Þröstur Leó Gunnarsson með titilhlutverkið en Pétur Einarsson
var í hlutverki Orgons og Edda Heiðrún Backman í hlutverki
Elmíru. Í viðtali sagðist leikstjórinn hafa fléttað inn í leikritið
„ástandi heimsins og ofneyslu og ofnýtingu mannsins á náttúrunni“
og að fyrir Tartuffe hafi vakað að „breyta lífsháttum fjölskyldunnar í
glaumi allsnægta“. Í þessari pólitísku nálgun sagðist hann taka „svo-
lítið frjálslega á efninu og tengj[a] það okkar nútímasamfélagi“.65
Samkvæmt þessu virðist leikstjórinn hafa lagt meiri áherslu á fjöl-
skyldu Orgons en persónu Tartuffes. Leikhúsfræðingurinn Martin
Regal harmaði það í umfjöllun sinni um sýninguna sem honum
þótti eiga lítt skylt við verk Molières:
Textinn, sennilega ágætlega þýddur af Pétri Gunnarssyni í óbundnu
máli, er lítið meira en beinagrind fyrir alls konar brögð og fíflagang
... Ekki er mikil áhersla lögð á Tartuffe sjálfan og túlkunin er að mínu
mati verri fyrir vikið. Þó að flestar týpurnar í verkinu séu ekki lengur
til í þjóðfélagi okkar er Tartuffe enn á lífi í formi allskonar gúrúa sem
þykjast vera trúaðir en eru í raun að leita að einhverju jarðbundnara
(efnislegri fullnægju). Það er aðeins í frægu senunni (í fjórða þættinum),
þar sem Tartuffe ætlar að njóta konu húsbóndans, að Þröstur Leó fær að
sýna hversu skemmtilega ógeðsleg þessi persóna getur verið.66
Sýningin hefur verið fjörug og búningarnir skrautlegir en leiklistar-
gagnrýnandinn Auður Eydal minnist sérstaklega á áferðarmuninn á
leiktextum í bundnu og óbundnu máli:
Þýðing Péturs Gunnarssonar á þessari ensku leikgerð F. Anstey er áheyri-
leg, en það breytir auðvitað yfirbragði verksins mikið að textinn skuli ekki
fluttur í bundnu máli, eins og gert var í sýningu Nemendaleikhússins fyrir
nokkrum árum þegar Karl Guðmundsson þýddi verkið.67
65 „Leikfélag Reykavíkur frumsýnir Tartuffe: Frjálslega farið með efnið – segir Þór Tulinius leik-
stjóri“, Dagblaðið Vísir – DV, 12. mars 1993, bls. 17 [sótt á timarit.is 13. nóvember 2018].
66 Martin Regal, „Lakkrís-Moli-ère“, Pressan, 18. mars 1993, bls. 25 [sótt á timarit.is 5. nóvember
2018].
67 Auður Eydal, „Loddari afhjúpaður – lausbeislað grín“, Dagblaðið Vísir – DV, 15. mars 1993, bls.