Milli mála - 2018, Page 89
MILLI MÁLA
Milli mála 10/2018 89
Marion Lerner
Háskóli Íslands
Nærvera og túlkun þýðandans
Notkun hliðartexta í þýskri þýðingu á
Pilti og stúlku eftir Josef C. Poestion
1. Inngangur
Árið 1883 kom Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen í fyrsta sinn út í þýskri þýðingu. Hún bar heitið Jüngling und Mädchen og var
gefin út af forlagi Óskars Parrisiusar í Berlín og Leipzig.1 Þýðandi
sögunnar var austurríski textafræðingurinn og Íslandsfræðingurinn
Jósef Calasanz Poestion (1853–1922). Þýðingin var endurbætt og
endurútgefin strax árið 1884 hjá hinu þekkta Philipp Reclam-
forlagi í Leipzig og hefur þar komið út í þremur útgáfum, síðast í
kringum 1900.2
1 Jón Thórdarson Thóroddsen, Jüngling und Mädchen. Eine Erzählung aus dem isländischen Volksleben
der Gegenwart, þýð. Jos. Cal. Poestion, Berlin og Leipzig: Verlag Oscar Parrisius, 1883.
2 Jón Thórdarson Thóroddsen, Jüngling und Mädchen. Eine Erzählung, þýð. J.C. Poestion, Leipzig:
Verlag Philipp Reclam jun., 1884–1900.
Bækurnar í ritröðinni „Reclams Universal-Biblitohek“ eru án ártals og því eru birtingarár útgáfn-
anna nokkuð á reiki. Þannig gefa ríkisbókasöfnin í Þýskalandi og Austurríki sem og íslenska
Þjóðarbókhlaðan ýmist upp mismunandi ár allt frá 1883 til 1902 eða útgáfurnar eru án ártals. Þar
sem ártalið hjá forlaginu Parrisius er staðfest, mun elsta Reclam-útgáfan varla hafa verið frá sama
ári eða 1883. Á útgáfulista Reclam-forlagsins frá 1884 er Jüngling und Mädchen hins vegar nefnd
sem númer 2226 og 2227. Ljóst er að samtals komu út þrjár útgáfur hjá Reclam. Íslenska leitar-
vélin leitir.is gefur upp árin 1886, 1887 og 1888 fyrir þessar þrjár útgáfur. Poestion sjálfur nefnir
í einum inngangstexta að um fjórðu útgáfuna sé að ræða. Í sömu bók vísar hann í önnur eigin rit
með útgáfuári 1900. Fjórða útgáfan getur því ekki verið eldri en frá 1900 þó að leitir.is nefni
ártalið 1888 og í skránni í Berlín komi fram árið 1895 en í München 1890. Í Þjóðarbókhlöðunni
hafa auk hæpinnar skráningar orðið þau mistök að titilblað annarrar útgáfu var límt framan á þá
fjórðu sem kemur í ljós þegar nefndur inngangstexti eftir Poestion er skoðaður í sama eintaki.
Þar sem á titilblaði Reclam-útgáfnanna kemur fram „zweite, revidierte Auflage“ (önnur, endur-
skoðuð útgáfa), „dritte, durchgesehene Auflage“ (þriðja, yfirfarin útgáfa) og „vierte, durchgesehene
Auflage“ (fjórða, yfirfarin útgáfa), má gera ráð fyrir því að umfangsmestu endurbæturnar megi
finna í 2. útgáfu, sem er sú fyrsta sem kom út hjá Reclam, en minni endurbætur í 3. og 4. sem
einnig komu út hjá Reclam.