Milli mála - 2018, Side 101
MARION LERNER
Milli mála 10/2018 101
an der Lateinschule zu Reykjavík/ in Freundschaft gewidmet/
vom Übersetzer“ (Hinu framúrskarandi íslenska skáldi/ Steingrími
Thorsteinssyni/ prófessor við Lærða skólann í Reykjavík/ tileinkað
með vinsemd/ af þýðandanum).40 Vísanirnar til meintrar prófessors-
stöðu ljóðskáldsins og vináttubanda hans og þýðandans eru eftir-
tektarverðar.41 Hér kemur ef til vill fleira til en þakkir til vinar;
mögulegt er að áhrifavald Steingríms sem prófessors geti flust yfir á
þýðandann, sem þrátt fyrir sérfræðikunnáttu sína gegndi ekki aka-
demísku embætti. Þess utan er lögð áhersla á að Poestion hafi náin
persónuleg tengsl við Ísland, sem eykur trúverðugleika þýðingar-
starfa hans. Á grundvelli æviverks hans má draga þá ályktun að
Steingrímur hafi stutt þýðandann með ráðum og dáð, en það er ekki
gefið beint til kynna. Í síðari útgáfum af Jüngling und Mädchen er enn
lögð áhersla á hið nána samband við ljóðskáldið, en annað er stytt:
„Dem trefflichen isländischen Dichter/ Steingrímur Thorsteinsson/
aufs Neue gewidmet/ vom/ Übersetzer“.42 (Hinu framúrskarandi
íslenska skáldi/ Steingrími Thorsteinssyni/ tileinkað að nýju/ af/
þýðandanum.) Kannski hefur forlagið gripið hér inn í.
Tileinkunin í Isländische Dichter der Neuzeit er sérlega áhugaverð.
Bókin er tileinkuð íslensku þjóðinni í heild sinni og gefur ekki
aðeins til kynna náin tengsl þýðandans við Ísland heldur þekkingu
á tilteknu samhengi og pólitíska afstöðu: „Dem isländischen Volke/
als Freundesgabe gewidmet/ zum ersten Februar/ 1904/ an welchem
Tage die neue freiheitliche Verfassung/ Islands/ in Wirksamkeit
getreten ist“.43 (Íslensku þjóðinni/ tileinkað sem vinargjöf/ þann
fyrsta febrúar/ 1904/ en þann dag tók hin nýja frjálslynda stjórnar-
skrá/ Íslands/ gildi.) Gera má ráð fyrir því að tileinkunin beinist
vissulega að þeim sem hún vísar til, en að í henni felist fyrst og
fremst skilaboð til almennings eða lesenda. Í grunninn snýst hún,
eins og Genette orðar það, um „siðferðislega, vitsmunalega eða
fagurfræðilega ábyrgð“.44 Það er því hægt að túlka þessa tileinkun á
40 Jüngling und Mädchen, 1883.
41 Hvaðan þessi prófessorsnafnbót kemur er frekar óljóst. Mögulega er þetta misskilningur af hálfu
Poestions eða aðlögun að austurrískum hefðum. Steingrímur Thorsteinsson var kennari og síðar
rektor Lærða skólans í Reykjavík.
42 Jüngling und Mädchen, 1900.
43 Poestion, Isländische Dichter, 1897.
44 Genette, Paratexte, 2016, bls. 133.