Milli mála - 2018, Qupperneq 108
NÆRVERA OG TÚLKUN ÞÝÐANDANS
108 Milli mála 10/2018
fylgja langan texta um sögu og starfsemi skólans með upplýs-
ingum um staðsetningu, skipulag og jafnvel námskrá og kennara-
lista Bessastaðaskóla.65 Sumar athugasemdanna auka auðsjáanlega
ekkert á skilning lesandans á sögunni heldur þjóna öðrum tilgangi.
Skáldsagan hefst á þessari setningu:
Á austan verðu Íslandi liggur hérað eitt, mikið og fagurt, er ..... hérað heitir;
þar gerðist saga sú, er hér skal rituð. Hérað þetta er all fjölbyggt, en var
þó betur bæjum skipað á dögum Síðu-Halls, og sést nú víða að eins fyrir
tóptum, þar sem sögurnar segja, að verið hafi vel hýst höfðingjasetur.66
Punktarnir fimm í héraðsheitinu gefa til kynna að um skáldaðan
stað sé að ræða. Poestion notast hér við þrjár stjörnur í þýðingu
sinni. Aftur á móti vísar textinn einnig í Síðu-Hall, sögulega per-
sónu sem var uppi í kringum árið 1000 á Austurlandi. Lesendur
frumtextans hafa haft einhverja hugmynd um þetta en ólíklegt er að
þeir hafi þekkt lífshlaup Síðu-Halls. Þekking af þessu tagi skiptir
engu máli heldur; einu upplýsingarnar sem lesendur þurfa á að halda
eru að sögusviðið er á Austurlandi. En þýðandinn bætir strax við
fyrstu aftanmálsgreininni og útskýrir hver Síðu-Hallur hafi verið,
hvar og hvenær hann hafi verið uppi, fyrir hvað hann sé þekktur, að
Íslandi hafi verið skipt í fjórðunga o.s.frv. Einnig gefur hann upp
heimildatilvísanir í tvær sinna eigin bóka, Island. Das Land und seine
Bewohner og Einleitung in das Studium des Altnordischen.67 Þar sem
þessi skýring bætir litlu sem engu við skilning lesenda á sögunni
hlýtur markmiðið að vera af öðrum toga. Þýðandinn leggur fram
umfangsmiklar upplýsingar um samhengi sögunnar sem ná langt
út fyrir textann og með því bendir hann á og miðlar þeirri þekkingu
sem hann hefur viðað að sér af eljusemi. Ef til vill má segja að hér
glitti í ákveðinn hégóma sérfræðingsins.
Í inngangstextunum og athugasemdunum er athyglisvert að
þýðandinn fellir sjálfan sig og lesendur undir hið sameiginlega for-
nafn „wir/við“, í fyrstu persónu fleirtölu. Þar vísar hann til þýsku-
mælandi, mið-evrópsks samfélags sem er menningarlega frábrugðið
65 Sama rit, aftanmálsgrein 26, bls. 193–194.
66 Jón Þ. Thoroddsen, Piltur og stúlka. Dálítil frásaga, Ísafjörður: Skúli Thoroddsen, 1895, bls. 1.
67 Jüngling und Mädchen, 1900, aftanmálsgrein 1, bls. 188.