Milli mála - 2018, Síða 111
MARION LERNER
Milli mála 10/2018 111
„sérkennum sínum“ væri frjálsari aðferð beitt.74 Hann hefði, að
eigin sögn, auðveldlega getað gert róttækari breytingar til að að-
laga „stundum allt að því fráhrindandi séríslenska bragarhætti rím-
lausra ljóða“ fyrir þýsk eyru en hafi kosið að gera það ekki.75 Þessi
lýsing rennur greinilega út í enn eina afsökunarbeiðni, en þær eru
eins konar leiðarstef hjá Poestion. Það sama á við um staðhæfingar
í Isländische Dichter, en samkvæmt þeim á íslensk ljóðlist „svo
djúpar rætur í einstöku þjóðlífi innfæddra“ og fái slagkraft sinn
gegnum „svo haganlega meðhöndlun á máli og rími“ að „jafnvel
meistaralegasta þýðingalist“ gæti aldrei miðlað henni að fullu.76
Í grein frá 2006 ber Jón Bjarni Atlason þýðingar Poestions á
Sigrúnarljóðum Bjarna Thorarensens saman við þýðingar Margarethe
Lehmann-Filhés.77 Hann gerir einnig þessa áberandi „afsökunar-
hneigð“ Austurríkismannsins að umtalsefni. Að auki tekur hann
undir með Arthúr Björgvin Bollasyni, sem hafði í útvarpserindi
fjallað um þýðingu Poestions á fyrsta erindi Dalvísu Jónasar
Hallgrímssonar og gagnrýndi hana fyrir of mikla nálægð hennar
og trúfestu við frumtextann. Jón Bjarni kallar þessa tilhneigingu
Poestions „einn helsta galla þeirrar aðferðar sem hann kaus“.78
Samanburður mismunandi útgáfna af Jüngling und Mädchen leiðir
í ljós að Poestion stytti útskýringar sínar á þýðingarstefnu sinni í
síðari útgáfum, sem voru þó stuttar fyrir. Á sama tíma jók hann
umfang nærtextanna töluvert og bætti við fjölda fjærtexta. Þetta er
mest áberandi þar sem eftirfarandi athugasemd er fjarlægð úr aftan-
málsgreinum síðari útgáfna, þótt samsvarandi fimm erinda ljóð sé
enn hluti megintextans:
Hér gerði ég tilraun til að gera trygga eftirlíkingu af íslenska frumljóðinu,
þar sem notast er við stuðlun auk endaríms. Sjá t.d. annað erindið:
74 Eislandblüten, bls. IX.
75 Sama rit, bls. IX, skáletrun þar.
76 Poestion, Isländische Dichter, 1897, bls. III.
77 Jón Bjarni Atlason, „Glöð skulum bæði við brott síðan halda brennandi í faðmlögum loftvegu
kalda …“. Josef Calasanz Poestion og þýðing hans á Sigrúnarljóðum Bjarna Thorarensens“, Jón á
Bægisá. Tímarit þýðenda 10/2006, bls. 24–42.
78 Sama rit, bls. 31.